Dita Liepkalne nýr leikmaður Njarðvíkur
Úrvalsdeildarlið Njarðvíkur í körfuknattleik kvenna hefur fengið liðsstyrk fyrir komandi tímabil. Sú heitir Dita Liepkalne og kemur frá Lettlandi. Liepkalne er nýútskrifuð frá Hawaai háskólanum í Bandaríkjunum þar sem hún stundaði einnig nám í miðskóla. Hún þótti standa sig vel þessi sex ár sem hún var í Bandaríkjunum og við tekur fyrsta árið í atvinnumennsku með UMFN. Liepkalne er lettneskur landsliðsmaður sem á leiki að baki með U 16, 18 og 20 ára liðum landsins.
Lið Njarðvíkur mætti Val í æfingaleik í gær í Ljónagryfjunni og þótti Liepkalne sýna fína takta. Bandarískur leikmaður liðsins er síðan væntanlegur síðar í mánuðinum.
Njarðvíkurliðið mætir Hamri í Lengjubikarnum á föstudaginn í Hveragerði.