Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Diouck tryggði Njarðvíkingum endurkomusigur í toppslagnum
Oumar Diouck reyndist hetja Njarðvíkinga í gær, hann er markahæstur í 2. deild með þrettán mörk. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. júlí 2022 kl. 07:30

Diouck tryggði Njarðvíkingum endurkomusigur í toppslagnum

Tvö efstu lið 2. deildar karla í knattspyrnu, Njarðvík og Þróttur, mættust í gær á Njarðvíkurvelli í sannkölluðum sex stiga leik. Eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik var það Oumar Diouck sem tryggði Njarðvík öll stigin með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í þeim seinni.

Njarðvík - Þróttur 2:1

Leikurinn var mjög jafn og hvorugt lið gaf tommu eftir. Liðin börðust um að ná undirtökum og sáust ófáar tæklngar beggja megin vallarins en jafnræði var á með liðunum framan af.

Magnús Þórir Matthíasson gefur hér ekkert eftir og uppskar gult spjald að launum.

Eftir rúmlega hálftíma leik dró til tíðinda en þá höfðu bæði lið náð að skapa sér nokkur hálffæri sem þeim hafði ekki tekist að nýta. Njarðvíkingar höfðu gerst nokkrum sinnum aðgangsharðir upp við mark Þróttar en markvörður þeirra hafði séð við öllu sem rataði á markið. Eftir eina slíka sókn náðu gestirnir góðri skyndisókn sem endaði með marki og Þróttarar komnir yfir (36').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Markvörður Þróttar átti fínan leik í gær og hélt aftur af Njarðvíkingum.

Þróttarar efldust við að ná forystunni á sama tíma og heimamenn voru örlítið slegnir út af laginu. Gestirnir voru nálægt því að tvöfalda forystu sína þremur mínútum eftir markið en Robert Blakala, markvörður Njarðvíkinga, náði naumlega að verja skot frá gestunum. Blakala rétt náði að breyta stefnu boltans sem hafnaði í innanverðri stönginni og dansaði eftir marklínunni en inn fór hann ekki og Njarðvík hreinsaði frá.

Gestirnir leiddu í hálfleik og það tók heimamenn smá tíma að vinna sig inn í leikinn á ný en þeir virtust andlausir og óöruggir í sínum aðgerðum upphafi seinni háfleiks. Njarðvíkingar fóru þó að setja meiri pressu á Þróttara og uppskáru aukaspyrnu rétt utan teigs gestanna. Oumar Diouck tók spyrnuna og skrúfaði boltann yfir vegginn og hann söng í samskeytunum (61'), ágætur markvörður Þróttar gat lítið annað gert en að horfa á.

Diouck var aftur á ferðinni fimm mínútum síðar þegar hann náði skoti í teig Þróttar, boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og aftur söng hann í netinu (66'). Það sem eftir lifði leiks reyndu Þróttarar hvað þeir gátu að jafna leikinn og juku pressuna á Njarðvíkinga sem gáfu ekki færi á sér. Við að bæta þunga í sóknina fengu Njarðvíkingar nokkur hálffæri en fleiri urðu mörkin ekki og Njarðvík jók forystu sína í ellefu stig á toppi deildarinnar. Ægir Þorlákshöfn á þó leik til góða og getur með sigri farið tveimur stigum upp fyrir Þrótt í annað sætið.

Diouck að skora seinna mark sitt.
Þrótttarar reyndu sitt ítrasta til að jafna leikinn en þétt vörn Njarðvíkur hélt.

Úlfur Ágúst kallaður til baka úr láni

Úlfur Ágúst Björnsson lék sinn síðasta leik fyrir Njarðvík í gær en FH hefur kallað til baka úr láni. Úlfur lék tólf deildarleiki og tvo bikarleiki með Njarðvík í sumar, hann skoraði í þeim tíu mörk og er næstmarkahæstur í deildinni.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og má sjá myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.

Njarðvík - Þróttur (2:1) | 2. deild karla 22. júlí 2022