Deildarmeistaratitill innan seilingar
Keflvíkingar færðust einu skrefi nær deildarmeistaratitlinum með öruggum heimasigri á Hamri/Selfossi, 97-67 í kvöld.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af enda máttu gestirnir ekki við því að tapa því þá væri sæti í úrslitakeppninni fjarlægur draumur. Þeir slógu heimamenn útaf laginu og náðu 8-14 forystu um miðjan 1. leikhluta. Meistararnir voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og höfðu náð 7 stiga forystu, 28-21 eftir leikhlutann.
Keflvíkingar héldu forskotinu þar til skammt var eftir af fyrri hálfleik þegar Hamarsmenn sóttu í sig veðrið og náðu yfirhöndinni, 38-39, eftir 4-15 kafla. Eftir það var þó mesta púðrið úr þeim og Keflvíkingar voru aftur komnir í bílstjórasætið fyrir hálfleik þar sem staðan var 46-42.
Keflvíkingar mættu í seinni hálfleik með miklum látum og lokuðu algerlega á gestina með grimmum varnarleik. Hvort sem þeir voru í svæðisvörn eða pressuðu ofar á vellinum áttu Hamarsmenn fá svör og gjáin milli liðanna breikkaði stöðugt.
Staðan fyrir síðasta leikhlutann var 71-55 og ljóst í hvað stefndi. Keflvíkingar völtuðu svo yfir gestina þar sem Gunnar Stefánsson fékk færi á láta ljós sitt skína og setti 15 stig á skömmum tíma. Öruggur sigur í höfn og liðið virðist á góðri leið fyrir úrslitakeppnina. Sigurður Ingimundarson, þjáfari vill samt meina að þeir eigi meira inni. „Við erum enn að stilla okkur af, en við erum að vinna í okkar málum og verðum á góðum stað þegar það skiptir máli.“
VF-myndir/Þorgils Jónsson