Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Deildarmeistararnir felldu Hauka í Ljónagryfjunni
Sunnudagur 4. mars 2007 kl. 21:52

Deildarmeistararnir felldu Hauka í Ljónagryfjunni

Haukar voru á síðasta séns í Ljónagryfjunni í kvöld. Með sigri gátu þeir enn haldið sér í Iceland Express deildinni en ósigur þýddi 1. deild að ári og sú varð raunin. Njarðvíkingar höfðu öruggan 10 stiga sigur á Haukum 88-78 og tóku á móti deildarmeistaratitlinum í leikslok. Síðustu 23 ár hafa Haukar leikið í úrvalsdeild en leika í 1. deild að ári og er óhætt að segja að Haukar hafi ekki leikið í kvöld eins og lið sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Haukar voru fremur áhugalausir og svo virtist sem þeir hefðu þegar sætt sig við fall áður en flautað var til leiks. Friðrik Erlendur Stefánsson, fyrirliði Njarðvíkinga, tók við deildarmeistaratitlinum í leikslok við mikinn fögnuð áhorfenda sem fjölmenntu í Ljónagryfjuna til að fagna með sínum mönnum.

Haukar byrjðu vel og komust í 0-4 og rétt eins og í upphafi síðustu leikja gerðust Njarðvíkingar sekir um nokkuð kæruleysi og þá aðallega í sendingum og í kjölfarið töpuðu þeir nokkrum boltum. Jeb Ivey kom Njarðvíkingum í 15-13 og eftir það varð ekki aftur snúið. Fyrsta leikhluta lauk svo í stöðunni 22-18 Njarðvík í vil.

Njarðvíkingar juku muninn jafnt og þétt í öðrum leikhluta og fengu allir leikmenn liðsins að spila. Rúnar Ingi Erlingsson kom sterkur inn í Njarðvíkurliðinu en þar er á ferðinni efnilegur leikstjórnandi. Rúnar kom Njarðvíkingum í 31-22 með þriggja stiga körfu og skömmu síðar fékk Wayne Arnold sína þriðju villu í liði Hauka en hann var þeirra besti maður í kvöld og gerði 29 stig í leiknum. Staðan var 44-33 þegar liðin gengu til hálfleiks og var tilfinningin sú að Njarðvíkursigurinn væri fjarri öllum hættumörkum.

Roni Leimu lék ekki með Haukum í kvöld en þeir hefðu vel getað notast við hans krafta í leiknum. Njarðvíkingar héldu muninum ávallt í kringum 10 stig í síðari hálfleik og komust allir leikmenn liðsins á blað. Þeirra atkvæðamestur var fyrirliðinn Friðrik Erlendur Stefánsson með 20 stig. Rúnar Ingi Erlingsson var sá leikmaður Njarðvíkinga sem nýtti tækifærið hvað best ungu leikmannanna í liðinu og sýndi að hann á gott erindi í úrvalsdeildina ef áfram heldur sem horfir hjá honum. Leikmenn á borð við Jeb Ivey og Brenton Birmingham fengu fína hvíld og þurftu ekki mikið að hafa fyrir hlutunum í kvöld.

Aðeins ein umferð er eftir af Iceland Express deildinni og í síðasta leik heimsækja Njarðvíkingar Þór í Þorlákshöfn en Haukar leika gegn Hamri/Selfoss að Ásvöllum

Gangur leiksins
0-4, 15-13,22-18
26-20,36-27,44-33
47-37,55-48,66-56
75-60,88-71,88-78

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024