Deildarmeistarar Grindavíkur lokuðu deildinni með sigri
Flesta aðra daga hefði þessi viðureign eflaust haft meira vægi en stórslagur Grindavíkur og Stjörnunnar í Iceland Express-deild karla í körfubolta vó ekki þungt á vogarskálum stöðutöflunnar nema í því tilliti að Stjarnan hefði getað lokið keppni ofar og tryggt sér andstæðin í 8-liða úrslitum neðar úr töflunni en Keflavík í 5. sæti.
Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar var í járnum mest allan tímann en Stjörnumenn ívið sterkari eftir að Grindavík hafði verið fljótari upp úr startblokkunum. 13-6 sást í upphafi en svo tók Stjarnan að skína skærar og leiddu þeir eftir fyrsta fjórðung, 26-22. Sá frábæri varnarleikur sem sást hjá Grindvíkingum í síðustu umferð á móti Njarðvík sást sem sagt ekki til að byrja með í gærkvöldi. Vörnin tók svo að herðast og tóku Grindvíkingar annan fjórðung 18-15 og staðan í hálfleik því 40-41 fyrir Stjörnuna. Mest bar á Renato Lindmets, Justin Shouse og Keith Cothran og voru þeir allir komnir yfir 10 stig í hálfleik en Giordan Watson sá eini í Grindavík sem hafði náð 2-stafa tölu en hins vegar voru 8 leikmenn Grindavíkur komnir á blað en Páll Axel og Þorleifur voru ekki í þeim fríða flokki.
Sama barátta var svo uppi á teningnum í seinni hálfleik og hart barist. Jafnt var í lok þriðja leikhluta, 60-60 þegar Þorleifur Ólafsson komst loks á stigaskorunarblaðið með glæsilegustu körfu þessa tímabils en Þorleifur stóð þá við eigin 3-stiga línu og henti boltanum rakleitt yfir allan völlinn og beint ofan í!
Hvers vegna skýtur Þorleifur ekki meira af þessu færi?
Grindavík tók góða rispu í upphafi loka leikhlutans og kom forskotinu upp í 9 stig og þann mun náðu Stjörnumenn aldrei almennilega að brúa þótt oft hafi þeir gert heiðarlegar tilraunir til þess. 9 stiga Grindavíkursigur því staðreynd.
Giordan Watson var besti leikmaður Grindavíkurliðsins í leiknum og sá eini sem almennilega komst í gang í stigaskoruninni, með 24 stig. Hann var með frábæra nýtingu (5/5 í 2-stiga og 4/7 í 3-stiga, 2/2 í vítum) Auk stiganna gaf hann 8 stoðsendingar. Sigurður Þorsteins var sá eini sem fór yfir hinn rómaða 10 stiga múr, með 12 stig. 10 leikmenn Grindavíkur komust á blað. Það vakti athygli undirritaðs hversu ótrúlega hart Stjörnumenn fengu að spila á J´Nathan Bullock en um tíma hélt ég að Renato Lindmets væri á einhverjum mögnuðum sérsamningi hjá dómurunum. Það var hreint lygilegt að sjá hvernig Lindmets fékk að berja á Bullock án þess að dómararnir aðhefðust nokkuð.
Renato var sterkastur Stjörnumanna með 24 stig og 9 fráköst. Hann er þræl sterkur greinilega og öflugur varnarmaður en komst að mínu mati eins og áður sagði, upp með að leika vörnina of öfluga á tímum. Justin Shouse skoraði 21 stig og gaf 7 stoðsendingar og Keith Cothran var sá síðasti til að mölva 10 stiga múrinn, með 14 stig.
Umfjöllun/ Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Karfan.is