Deildarkeppninni lýkur í kvöld
Stela Keflvíkingar 4. sætinu?
Síðasta umferð Domino´s deildar karla verður leikin í kvöld og standa öll 3 Suðurnesjaliðin í ströngu á erfiðum útivöllum.
Allir leikirnir skipta liðin gríðarlegu máli að vinna því að lokaniðurröðun er enn óráðin og getur ennþá margt gerst og er barist um heimavallarrétt sem og að fá þægilegri andstæðing í fyrstu umferð en óhætt er að fullyrða að nokkurt lið vilji mæta KR eða Tindastóli í 8 liða úrslitum.
Við tókum þjálfara liðanna tali og forvitnuðumst um hvernig ástand leikmannahópa er og hvað þarf að ganga upp til að sigur náist í kvöld.
Sverrir Þór Sverrison, þjálfari UMFG, um leik liðsins gegn Snæfelli:
Stemmningin í hópnum er góð og við viljum enda deildina á sigri og eiga möguleika á að komast ofar í deildinni. Það eru engin meiðsli að hrjá okkur en einhver veikindi verið undanfarna daga en ég vonast eftir að vera með fullskipaðan hóp í Hólminum Við þurfum að spila góða liðsvörn, mæta àkveðnir frá fyrstu sekúndu og spila agaðan sóknarleik til að vinna Snæfell.
**Uppfært 09:29: Ólafur Ólafsson mun ekki leika með Grindvíkingum í kvöld vegna veikinda**
Aðspurður um endurkomu og möguleg áhrif Þorleifs Ólafssonar á liðið hafði Sverrir þetta að segja:
Það er frábært að Þorleifur sé kominn à fullt aftur, frábær leikmaður , mikill leiðtogi sem á eftir að hjálpa okkur mikið í baráttunni um titilinn. Við erum bjartsýnir og teljum okkur geta unnið hvern sem er.
Jón Nordal Hafsteinsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, um leik liðsins gegn Haukum:
Stemmningin er mjög góð og fer stígandi, eins og hún á að vera á þessum tíma árs. Sigur í kvöld er mjög milvægur fyrir okkur og getum við komist í 4. sætið og fengið heimavallarrétt í fyrstu umferð. Það má ekki gleyma því að fyrir helgi vorum við í 8. sæti deildarinnar.
Við þurfum að leggja áherslu á varnavinnuna, hjálpast að og vinna hana sem ein heild. Eins með sóknina, láta boltann vinna fyrir okkur og nýta okkur veikleika þeirra.
Það er búið að vera mikið um meiðsli í vetur en nú er það búið, allir klárir í úrsltakeppnina og þá er enginn meiddur.
Hvernig metur þjálfarateymið möguleika liðsins í úrslitakeppninni miðað við spilamennsku liðsins í ár?
Þetta er búið að vera mjög sérstakt tímabil hjá okkur og varla hægt að dæma liðið út frá því. Það er búið að vera stígandi hjá okkur síðustu vikur, liðið loksins fullskipað og menn klárir í slaginn. Við höfum alla burði til að fara langt í úrslitakeppninni eins og við erum að spila núna.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, um leik liðsins gegn Þór Þorlákshöfn:
Stemingin er góð og hópurinn meðvitaður um stöðuna. Úrslitakeppnin nálgast og gott að vera á góðu róli þegar inn í hana er farið. Í kvöld þurfum við að halda einbeitingu og spila vel, það þarf alltaf að spila extra vel á útivöllum. Grunnurinn að flestu því góða sem gerist í körfubolta byrjar og endar með góðum varnarleik.
Oddur Birnir Pétursson er með slitna sin á fingri svo hann verður ekki með alveg á næstunni en vonandi kemur hann áður en yfir lýkur. Aðrir eru að mestu nokkuð brattir.
Hvernig hefur nærvera Elvars Más komið við liðið og er eitthvað vitað um það hvort að hann komi til með að taka þátt í úrslitakeppninni?
Hann hefur smollið vel inn þennan stutta tíma sem hann hefur verið með okkur, hann þekkir vel-flesta leikmenn liðsins mjög vel, hefur spilað með þeim upp alla yngri flokka sem og í meistaraflokki undanfarin ár. Hann er ekki kominn til að bjarga neinu, frekar að styrkja hópinn. Á þessu stigi málsins er best að segja sem minnst. Það kemur bara í ljós ef hann nær einhverjum leikjum á næstu vikum en námið er aðalmálið hjá honum núna.
Allir leikirnir hefjast kl. 19:15 og fyrir þá sem ekki geta lagt leið sína á völlinn er bent á að leikur Þórs og Njarðvíkur verður sýndur beint á Sporttv.is og þá verða Haukar með leik sinn gegn Keflavík í beinni útsendingu í gegnum heimasíðu sína, tv.haukar.is.