Dasaðir Grindvíkingar steinlágu fyrir ÍR
Grindavík tapaði í gær 3:0 fyrir ÍR í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Grindavíkurliðið hitti ekki á sinn besta dag og virkaði einbeitingarlaust og komst aldrei í takt við leikinn.
ÍR - Grindavík 3:0
ÍR hafði tögl og hagldir í leiknum frá fyrstu mínútu en ÍR-ingum gekk illa að finna markið.
Eftir markalausan fyrri hálfleik brast stíflan þegar Dennis Nieblas varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu (47').
ÍR gekk á lagið og tvöfaldaði forystuna. Aftur kom mark upp úr hornspyrnu, ÍR náði að koma boltanum á markið en Aron Dagur Birnusona, markvörður Grindavíkur, varði en Renato Punyed Dubon náði frákastinu og skoraði stöngin inn (54').
Markahæsti maður deildarinnar, Bragi Karl Bjarkason, gerði endanlega út um leikinn með mark á 79. mínútu.
ÍR fór upp fyrir Grindavík með sigrinum en Grindvíkingar eru í fimmta sæti Lengjudeildarinnar.
Tveir leikir síðustu leikirnir í tólftu umferð eru á dagskrá í dag, Njarðvík mætir Dalvík/Reyni fyrir norðan og Afturelding tekur á móti Þór frá Akureyri.