Darrel Lewis til Keflavíkur
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur gert samning við Darrel K. Lewis um að leika með liðinu á komandi tímabili. Darrel Lewis er íslenskur ríkisborgari en hann er í kringum 192 cm á hæð og getur spilað bæði skotbakvörð og lítinn framherja.
Flestir körfuknattleiksunnendur ættu að þekkja Darrel Lewis en hann lék þrjú tímabil með Grindavík við góðan orðstír á árunum 2002 – 2005. Síðan þá hefur Darrel Lewis leikið á Ítalíu og í Grikklandi en á síðasta tímabili lék hann með OF Irakleio í grísku 2. deildinni þar sem hann var meði tæp 15 stig, 4,6 fráköst og um tvo stolna bolta að meðaltali í leik. Ljóst er að með komu Darrel Lewis mun koma aukin reynsla inn í hið unga Keflavíkurlið. Slík reynsla ætti að reynast liðinu vel og munu ungu leikmennirnir án efa geta notið góðs af þekkingu og hæfileikum Darrel Lewis.
Viðtal við Lewis má sjá á heimasíðu Keflvíkinga þar sem meðal annars kemur fram að hann hlakkar til að spila undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar og einnig ð leika við hlið Magnúsar Gunnarssonar. Einnig ætlar hann að skella sér á Nonnabita í Reykjavík og fá sér samloku.
Keflavík.is greinir frá.