Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Dapurt hjá Keflavík
Föstudagur 4. nóvember 2005 kl. 03:23

Dapurt hjá Keflavík

Keflvíkingar komast ekki áfram úr riðli sínum í Evrópukeppninni í körfuknattleik. Þeir töpuðu sínum þriðja leik í röð í keppninni í kvöld, nú gegn finnska liðinu Lappeenranta, 75-92.

Finnarnir hófu leikinn betur og komust í 2-10 á upphafsmínútum leiksins og héldu forystunni það sem eftir lifði leiks. Langskyttur finnska liðsins voru afar skeinuhættir þar sem Pasi Riihela og Matthew Williams fóru fremstir í flokki. Vörn Keflvíkingar var ekki nægilega þétt þannig að í fyrsta leikhluta skoruðu gestirnir 31 stig á móti 18 stigum Keflvíkinga.

Áhorfendur, sem hefðu að ósekju mátt vera fleiri á stórleik sem þennan, fengu ekki að sjá liðið sem hefur boðið risaklúbbum Evrópu byrginn undanfarin ár í fyrsta leikhluta, en kættust í þeim næsta.

Allt annað var uppi á teningnum hjá Keflvíkingum í öðrum leikhluta þar sem þeir léku fasta pressuvörn sem setti leikmenn Lappeenranta í tóm vandræði á köflum. Baráttan og leikgleðin virtust ætla að skila sér þar sem stigamunurinn minnkaði jafnt og þétt. Eftir 10 stiga rispu var staðan 32-35 og allt orðið galopið. Þá vöknuðu Finnarnir af blundinum og náðu að halda muninum í 5 stigum í hálfleik, 47-52.

Í seinni hálfleik var sem allur vindur væri úr heimamönnum. Ekkert gekk upp, sérstaklega í sókninni þar sem Keflvíkingar komust ekki á blað fyrr en eftir þrjár og hálfa mínútu þegar AJ Moye gerði tvö stig. Hvað eftir annað fóru sóknir út um þúfur vegna einbeitingarleysis, og fljótfærni auk þess sem Finnarnir léku fantagóða vörn. Á hinum endanum var heimamönnum refsað hvað eftir annað og munurinn jókst stöðugt.

Fyrir síðasta leikhluta var staðan 53-79 og ljóst að leikurinn væri tapaður. Keflvíkingar náðu að klóra í bakkann áður en yfir lauk, en tapið var staðreynd.

Síðustu tvo vetur hefur Keflavík verið glæsilegur fulltrúi íslensks körfuknattleiks í Evrópukeppnum þar sem stór atvinnumannalið hafa fengið að kenna á Hraðlestinni bæði hér heima og á útivöllum. Þó glitt hafi í þess háttar takta í fyrri hálfleik í kvöld er augljóst að liðið þarf að fá miklu meira út úr lykilmönnum sínum ef vel á að fara.

Magnús Gunnarsson, sem var góður í útileikjunum, skoraði einungis 6 stig í kvöld áður en hann fór af velli með 5 villur. Þar af var engin 3ja stiga karfa en það heyrir til tíðinda á þeim bænum. Fyrirliðinn Gunnar Einarsson, sem hefur einmitt verið bestur þegar á reynir í stórum leikjum náði sér heldur ekki á strik, en Bandaríkjamennirnir AJ Moye (17 stig, 12 fráköst) og Adrian Henning (22 stig) voru atkvæðamestir Keflvíkinga. Makedóninn Zlatko Gocevski er kominn langleiðina með að spila sig aftur til síns heima og var slakur í kvöld eins og hann hefur verið í flestum leikjum í vetur.

Besti íslenski leikmaðurinn var Elentínus Margeirsson, sem kom af bekknum og barðist á báðum endum vallarins. Hann setti m.a. báðar 3ja stiga körfur Keflvíkinga í leiknum. Jón Norðdal átti líka ágætis rispur, sérstaklega í byrjun leiks og lauk leiknum með 10 stig.

Keflvíkingar hafa tækifæri til að ljúka þátttöku sinni í þessari keppni með sæmd, en BK Riga sækir þá heim fimmtudaginn 17. nóvember.

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024