DansKompaní í hópi sterkustu listdansskóla í heimi
Hóf til heiðurs keppendum á heimsmeistaramótinu í dansi var haldið á fimmtudaginn 4. ágúst síðastliðinn. Dönsurum Team DansKompaní og aðstandendum var boðið á skemmtilegt hóf í Gyllta sal Hótel Keflavíkur í tilefni glæsilegs árangurs dansaranna á mótinu. Fluttar voru ræður og öllum þátttakendum, keppendum og þjálfurum afhendir blómvendir, rósir og minjagripir fyrir árangurinn. Þá voru einnig hamborgarar, franskar og gos í boði Reykjanesbæjar fyrir viðstadda og sýnt var myndband frá ferlinu.
Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, hóf kvöldið með því að bjóða alla velkomna og segja nokkur orð. „Ég get fullyrt það að enginn viðburður hefur vakið jafn mikla athygli,“ var meðal þess sem Hafþór sagði. Þegar hann hafði lokið ávarpi tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar, við orðinu fyrir hönd bæjarstjórnar og óskaði Team Danskompaní innilegra hamingjuóska. „Það var stórkostlegt að fylgjast með ykkur öllum, að sjá gleðina skína af andlitunum og fá að fylgjast með ykkur þegar þið tókuð við verðlaunapeningunum. Þetta var stórkostlegt! Við erum rosalega stolt af ykkur og hlökkum til að fylgjast með ykkur í framtíðinni. Hjartanlega til hamingju með þennan stóra árangur,“ sagði Halldóra.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sagði einnig nokkur orð um árangur skólans. „Við erum ákaflega stolt af ykkur. Ég er sannfærður um að þið munuð búa að þessu alla ævi. Þessum aga, þessu álagi og því sem þið hafið lagt að mörkum. Allar fórnirnar, að hafa þurft að segja nei við einhverju sem þið vilduð gera af því þið þurftuð að fara á dansæfingu. Þetta er þjálfun sem mun nýtast ykkur, trúi ég, alla ævi,“ sagði Kjartan. Mikill undirbúningur fór í keppnina og Kjartan þakkaði foreldrum og aðstandendum fyrir að leggja sitt að mörkum. „Vonandi dafnar skólinn okkar og ykkar sem allra, allra best um ókomna framtíð og til hamingju með allt Helga Ásta, foreldrar, þjálfarar og síðast en ekki síst, nemendur,“ sagði Kjartan að lokum.
Sturlaður árangur
Til þess að fá keppnisrétt á heimsmeistaramótinu þurfa dansarar að ná minnst 70 stigum, af 100 mögulegum, og vera í fyrsta til fjórða sæti í forkeppninni. Yfir 20.000 dansarar frá 62 löndum víðs vegar um heiminn kepptu í forkeppninni í sínu landi en aðeins 6.000 fá þátttökurétt í úrslitum. Forkeppnin fyrir íslensku dansarana var haldin hér á landi í mars í Borgarleikhúsinu og komust allir dansarar og öll atriði DansKompaní áfram úr forkeppninni í úrslitakeppnina sem haldin var í San Sebastian á Spáni. Þá vann Team DansKompaní tvö silfurverðlaun og tuttugu og tvö gullverðlaun í forkeppninni. Helga Ásta Ólafsdóttir, eigandi DansKompaní, segir árangur skólans í keppninni hafa farið fram úr fram úr vonum. „Í úrslitakeppninni unnum við þennan heimsmeistaratitil, sem er algjörlega sturlaður árangur, en það má líka nefna að níu af atriðum skólans voru í topp tíu. Við lentum með eitt atriði í tíunda sæti, eitt í áttunda, eitt í fimmta, þrjú í fjórða sæti og svo var eitt atriði sem fékk bronsverðlaun, eitt silfur og svo gullverðlauna atriðið. Allir þrjátíu og átta dansararnir voru í einu eða fleiri atriðum af þessum níu atriðum. Þannig að allir keppendur skólans voru í topp tíu,“ segir Helga Ásta.
Í mörg horn að líta
Í keppninni eru einnig talin svo kölluð landsstig en þau eru gefin í flestum keppnisflokkum. Hvert land fær stig fyrir að eiga atriði sem lenda í fyrsta til sjötta sæti. Þá er gefið eitt stig fyrir sjötta sætið, tvö stig fyrir það fimmta og svo framvegis. Öll stig Íslands komu frá nemendum DansKompaní og er því óhætt að segja að skólinn sé einn sterkasti listdansskóli landsins og er nú meðal þeirra sterkustu í heiminum. Helga Ásta segir árangur sem þennan aðeins nást með gífurlegri vinnu og sterkri liðsheild meðal allra þeirra sem koma að hópnum, keppenda, danshöfunda, kennara og foreldra og aðstandenda. „Það er í ansi mörg horn að líta þegar keppt er á heimsmeistaramóti og mikilvægt að hafa góðan stuðning heima fyrir. Verkefnið er dýrt og það var aðdáunarvert að sjá hvað hópurinn var duglegur að safna styrkjum og fjárafla. Einnig vil ég þakka sérstaklega öllum þeim frábæru fyrirtækjum af Suðurnesjum, sem styrktu okkur, þeir styrkir hjálpuðu mikið,“ segir Helga Ásta og bætir við: „Það vakti sérstaka athygli í San Sebastian hvað aðstandendahópur Team DansKompaní var flottur. Hópurinn keypti boli sem stóð á „dans systir“ og „dans bróðir“ og meira að segja „dans amma“ og „dans afi“. Þetta sýnir svo vel hvað hópurinn er þéttur og ótrúlega flottur,“ segir Helga Ásta. Hún segir það vera forréttindi að vinna með hópi sem þessum og að það sé ólýsanlegt að ná svo góðum árangri. „Ég er ótrúlega stolt af þessum hópi og hlakka mikið til að sjá framtíðardansara á Suðurnesjum „brillera“ á þessu sviði,“ segir Helga að lokum.