Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Danskompaní á leið á Heimsmeistaramótið í dansi
Þær Sonja, Ingibjörg, Díana, Sóley, Jórunn, Elma og Júlía komust allar í landslið Íslands í dansi.
Fimmtudagur 11. apríl 2019 kl. 11:00

Danskompaní á leið á Heimsmeistaramótið í dansi

-Stífar æfingar framundan

Sjö dansarar listdansskólans Danskompaní í Reykjanesbæ hafa nú tryggt sér þátttöku á Heimsmeistaramótinu í dansi sem fram fer í Portúgal í sumar. Með glæsilegum árangri í undankeppni mótsins, sem haldin var um þarsíðustu helgi, komust stelpurnar allar inn í landslið Íslands í dansi en þær kepptu með ellefu atriði í undankeppninni og unnu níu þeirra til verðlauna.

Dansararnir sem um ræðir eru Díana Dröfn Benediktsdóttir, Elma Rún Kristinsdóttir, Ingibjörg Sól Guðmundsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Júlía Mjöll Jensdóttir, Sonja Bjarney Róbertsdóttir Fisher og Sóley Halldórsdóttir en þær kepptu í alls kyns dansflokkum, til að mynda „Jazz“ og „Commercial“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helga Ásta Ólafsdóttir, eigandi Danskompaní, segir í samtali við Víkurfréttir að stelpurnar séu ennþá að ná sér niður á jörðina. Árangurinn sé frábær og dansararnir himinlifandi með úrslitin enda var undirbúningurinn langur og strangur. „Við erum búnar að vera í um tvö mánuði að undirbúa þetta. Þetta voru mörg atriði og það tekur tíma að semja þau – og ekki síður að æfa þau. Þetta var frábær helgi.“

Danskompaní hefur um nokkurra mánaða skeið verið til húsa í nýrri aðstöðu að Brekkustíg 40–42 í Njarðvík og Helga Ásta segist ótrúlega sátt með nýju aðstöðuna. „Salirnir hér eru æðislegir. Gamla aðstaðan var vissilega ótrúlega flott líka en við erum ánægð að við fengum jafn góða og jafnvel aðeins betri aðstöðu hér.“
Næstu mánuðir munu einkennast af mikilli hörku og mörgum æfingum í Danskompaní. Skólinn heldur vorsýningu þann 4. maí næstkomandi í Andews Theater á Ásbrú og eftir hana verður haldið áfram að æfa. „Vanalega er smá pása eftir vorsýninguna en það verður ekki í ár. Það verður engin pása fyrr en í júlí.“

Fylgist með því á Suðurnesjamagasíni í kvöld kl. 20:30 á Hringbraut þegar kíkt var á æfingu hjá Danskompaní.