Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Damon Johnson til Keflavíkur
Hér er skemmtileg mynd af Damon þar sem hann gefur ungum körfuboltadömum úr Keflavík eiginhandaráritanir. Til vinstri má sjá Bryndísi Guðmundsdóttur, eina af lykilkonum Keflavíkur í dag.
Sunnudagur 24. nóvember 2013 kl. 13:18

Damon Johnson til Keflavíkur

Bandaríkjamaðurinn Damon Johnson, að margra mati besti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur í efstu deild körfuboltans hér á landi, kemur til Keflavíkur á næstu dögum. Hann mun leika með B-liði félagsins gegn ÍG í bikarkeppninni næsta föstudag.

„Okkur langaði bara að hitta hann því það eru tíu ár frá því hann var hér síðast. Við vitum ekkert hvort hann sé í formi eða ekki enda skiptir það ekki máli. Þetta er bara gert upp á fjörið,“ sagði Sævar Sævarsson, stjórnarmaður í Keflavík og leikmaður B-liðs Keflavíkur. Í liðinu eru nokkrir af fyrrum snillingum Keflavíkur í körfunni. Einn þeirra er Gunnar Einarsson og hann virðist vera í toppformi á miðað við frammistöðu hans með liðinu um daginn þegar hann fór mikinn í stigaskori.

„Eina sem hann bað um var að fá góða gistingu, fara í Bláa lónið og á Nonna bita,“ sagði Sævar og hló. Hann bætti því við að líklega yrði haldið upp á heimsókn Damons með stuðningsmannakvöldi eftir leikinn við ÍG.

Damon fékk íslenskan ríkisborgararétt og lék nokkra landsleiki með Íslandi. Hann lék síðast árið 2003 með Keflavík en þá vann liðið Íslandsmeistaratitilinn. Damon hefur oft leikið með Keflavík og unnið marga titla með liðinu. Hann fór eftir sigurárið 2003 til Spánar þar sem hann lék í tvö ár hjá tveimur liðum. Hann hefur síðustu árin verið í Bandaríkjunum.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024