Damon Johnson kom Keflvíkingum í úrslit

Í seinni hálfleik byrjuðu Grindvíkingar gríðarlega vel og náðu að komast yfir. Munurinn var þó aldrei meiri en 6 stig og því var allt í járnum. Grindvíkingar virtust vera að fara með sigur af hólmi en þá tók Guðjón Skúlason að raða þriggjastigakörfum í öllum regnbogans litum og hélt Keflvíkingum inní leiknum. Þetta varð til þess að Friðrik Rúnarsson breytti vörn liðsins úr svæðisvörn í maður á mann vörn og má í raun segja að það hafi verið vendipunktur leiksins. Damon Johnson tók þá að raða körfunum fyrir gestina og þegar 30 sek. voru eftir leiddu Keflvíkingar 81:84. Grindvíkingar fóru í sókn og í henni skoraði Helgi Jónas Guðfinnson þriggjastiga körfu og jafnaði leikinn. Keflvíkingar áttu boltann og einungis 14 sek. eftir. Damon Johnson fékk boltann og átti að klára leikinn sem hann gerði því hann fór alla leið að körfunni og skoraði og fékk víti að auki sem hann reyndar klikkaði úr. Það munaði þó mjög litlu
að Nökkvi Már Jónsson næði að stela sigrinum því skot hans frá eigin vallarhelming rúllaði af hringnum og Keflvíkingar glöddust.
Damon Johnson var bestur í liði Keflvíkinga með 39 stig og 10 fráköst en næstur honum var Sverrir Sverrisson með 13 stig. Guðjón Skúlason var einnig drjúgur á lokakaflanum og setti þá öll 9 stigin sín.
Tyson Petterson var bestur í liði heimamanna með 25 stig og Guðlaugur Eyjólfsson kom næstur með 17 stig.
Keflvíkingar unnu einvígið 3-1 og mæta Njarðvíkingum í úrslitum.