Damon fór á kostum með „hraðlest“ Keflavíkur
Frábær stemmning á leik Keflavíkur og ÍG í 16 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ. Gamla „hraðlestin“ með Damon í fararbroddi hefur litlu gleymt.
Damon Johnson fór mikinn þegar B-lið Keflavíkur sigraði ÍG í Grindavík með tuttugu stiga mun. Lokatölur urðu 80-100 og skoraði Damon Johnson 31 stig og sýndi gamla takta með gömlu „hraðlestinni“ sem fór aðeins hægar yfir í þessum leik en sýndu engu að síður frábæra takta og reynslu.
Keflvíkingar buðu Damon að koma í heimsókn og leika með þeim þennan leik í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. B-liðið er að mestu leyti skipað sömu leikmönnum og voru kjölfestan í Keflavíkurhraðlestinni sem vann nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla í körfuboltanum.
Leikurinn í Grindavík var skemmtilegur fyrir þær sakir að gömlu kapparnir eins og Gunnar Einarsson, Sverrir Sverrisson, Albert Óskarsson, Sigurður Ingimundarson og Guðjón Skúlason ásamt fleirum höfðu gaman af og skoruðu mikið af flottum körfum. Lið ÍG átti lítið í þessa reynslubolta þó þeir væru flestir nokkrum kílóum þyngri. Nú er bara spurningin hverjir verða mótherjar liðsins í 8 liða úrslitum. Keflvíkingarnir göntuðust með það að þeir ætluðu sér í úrslitin í Laugardalshöllinni. Það yrði saga til næsta bæjar. Í því fjöri var talað um að ná í Damon aftur fyrir næsta leik. Hver veit.
Damon skoraði 31 stig af öllum gerðum og Gunnar Einarsson var með 19 stig, Sverrir með 11, aðrir minna.
Keflvíkingar eftir sigurleikinn gegn ÍG, Damon Johnson í kunnuglegri stellingu en þetta lið varð Íslandsmeistari 2003. VF-myndir/PállOrri.
Stemmning á bekknum, Jón Halldór þjálfari liðsins klæddur á viðeigandi hátt.
Damon þakkaði stuðningsmönnum eftir leikinn. Hér er hann með einum hörðum, Ástvaldi Ragnari Bjarnasyni.
Albert Óskarsson var ótrúlega drjúgur.
Gunnar Einarsson hefur heldur litlu gleymt og er í fanta formi.
Damon kunni vel við sig á vellinum og skilaði 31 stigi.
Já, The boys are back in town, vissulega orð að sönnu. Nærri 200 áhorfendur mættu í Grindavík til að sjá leikinn.