Dagur Ingi maður leiksins í bikarsigri Grindavíkur
Þróttur og RB úr leik
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson átti góðan leik og skoraði mark þegar Grindavík tryggði sér farseðil í sextán liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í gær með sigri 2:1 á Reyni/Dalvík.
Sigur Grindvíkinga var sanngjarn og hefði átt að vera stærri en þeir sóttu án afláts og höfðu góð tök á leiknum. Þó virtist eitthvað bera á öryggisleysi í öftustu línu þegar gestirnir náðu að byggja upp sínar sóknir og það hleypti þeim inn í leikinn undir lokin.
Bæði mörk Grindavíkinga komu í fyrri hálfleik. Dagur Ingi opnaði markareikninginn á 8. mínútu eftir sendingu frá Óskari Erni Haukssyni sem hefur tekið við fyrirliðahlutverkinu af Sigurjóni Rúnarssyni.
Það var svo Guðjón Pétur Lýðsson sem tvöfaldaði forystu heimamanna með marki beint úr aukaspyrnu (30') og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þrátt fyrir mikla yfirburði í seinni hálfleik náðu Grindvíkingar ekki að klára færin og það var algerlega gegn gangi leiksins þegar Reynir/Dalvík minnkaði muninn eftir skyndisókn (83'). Við markið vaknaði örlítil vonarglæta hjá gestunum en heimamenn voru fastir fyrir og sigldu sigrinum örugglega í höfn.
Grindvíkingar virkuðu sprækir í byrjun tímabils og eru til alls líklegir í sumar. Dagur Ingi var vinnusamur í leiknum og var að lokum valinn maður leiksins, Víkurfréttir tóku hann tali eftir leik og má sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var staddur á leik Grindavíkur og Reynis/Dalvíkur og má sjá myndasafn neðst á síðunni.
Önnur úrslit:
KR- Þróttur 3:0
Þróttur Vogum mætti KR á miðvikudag á heimavelli þeirra síðarnefndu og voru það KR-ingar sem unnu sanngjarnan 3:0 sigur eftir markalausan fyrri hálfleik.
Valur - RB 4:1
RB dróst á móti Val og tapaði 4:1. Valsmenn komust yfir á 21. mínútu en Alexis Alexandrenne jafnaði fyrir RB (28'). Valur komst yfir á nýjan leik skömmu fyrir leikhlé og bætti tveimur mörkum við í lok leiks.