Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Dabbarnir höfðu betur gegn Öllunum í formannaslagnum
Öllar og Dabbar á mynd fyrir leik UMFN og UMFG í Ship O Hoj, allir saddir og sælir. VF-mynd/pket.
Föstudagur 20. febrúar 2015 kl. 07:00

Dabbarnir höfðu betur gegn Öllunum í formannaslagnum

-Grindvíkingar þökkuðu gestrisni Njarðvíkinga með sigri

Öllarnir og Dabbarnir hittust fyrir leik Njarðvíkur og Grindavíkur í Domino’s deildinni í körfubolta í síðustu viku og fóru mikinn að venju enda allt kappar með munninn fyrir neðan nefið. Eftir spakan hitting og ljúffengan mat í boði Öllanna hrósuðu Grindjána-Dabbarnir sigri í leiknum, frekar óvænt en sanngjarnt.

Öllarnir eru Örlygssynir úr Njarðvíkum, bræðurnir Gunnar, Teitur og Sturla fremstir í flokki. Dabbarnir eru Dagbjartssynir; Jón Gauti, Einar, Sigurbjörn og Eiríkur. Þar fer Jón Gauti fremstur í flokki og Gunnar hinum megin en þeir eru formenn körfuknattleiksdeilda UMFN og UMFG og hafa í gegnum súrt og sætt verið vinir í mörg ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ástæðan fyrir bræðrahópahittingnum var sú að Gunnar bauð þeim Grindvíkingum í mat á Ship O Hoj veitingastaðnum og verslun, fyrir leik liðanna í síðustu viku. „Ég held að ögn af manngæsku gæti fylgt boðinu enda líklegt að þeir bakkabræður fái skellinn síðar um kvöldið í Ljónagryfjunni,“ sagði Gunnar á Facebook síðu sinni þar sem hann bauð þeim Grindvíkingum. Það lá ekki á svörunum og stór orð fylgdu með frá þeim Grindjánum.  „Hér er það sem mun gerast...við bræður mætum, borðum og ropum hátt og skýrt...þökkum kannski fyrir okkur, höldum því næst í þetta ljónabæli ykkar og horfum á okkar menn skeina þessum hvolpum sem þú kallar lið...með þökk fyrir matinn og stigin tvö. Þú ert sannarlega höfðingi,“ sagði Jón Gauti að bragði, ekki beint orðvar frekar en fyrri daginn.

Dagbjartssynir mættu svo í Njarðvíkurnar og sá gamli, Dagbjartur faðir þeirra kom líka enda mikill íþróttaáhugamaður. Margrét Örlygsdóttir, systirin í Öllahópnum og hennar fólk í Ship O Hoj færði gestunum úr Grindavík ljúffengan „fisk og franskar“ eða Ölla-borgara en það er hluti þess sem hún býður upp á í Ship O Hoj. Tveir boðsgestir voru í hópnum en það voru bæjarstjórar Grindavíkur og Reykjanesbæjar, Róbert Ragnarsson og Kjartan Már Kjartansson og létu þeir ekki sitt eftir liggja í fjörinu. Þá var oddviti sjálfstæðismanna í Grindavík viðhengi Grindjána, Hjálmar Hallgrímsson, gamalreyndur íþróttamaður og lögregluþjónn með meiru. Enginn smá hópur þegar allt er talið.


Eftir matinn héldu allir saman á leikinn sem var fjörlegur í meira lagi en með frekar óvæntri súperframmistöðu Grindvíkinga. Hún skilaði þeim sigri og eftir leik tókust formennirnir í hendur og voru hressir. Jón Gauti Grindavíkurformaður þó léttari eftir sigur sinna manna. „Þetta var sætt en ég var banginn fyrir leikinn. Gunnar vinur minn ætlaði að taka okkur á einhverri gestrisni en það þýðir ekki neitt. Við svöruðum því bara með því að taka þá í bólinu. Að öllu gríni slepptu var þetta mjög mikilvægur sigur fyrir okkur og hann hjálpar okkur í baráttuni. Hafi Gunnar þökk fyrir boðið.“ Gunnar UMFN-formaður sagði tapið ekki skipta mjög miklu því liðið væri í góðri stöðu og væri á siglingu. Framundan væri úrslitakeppni og allt útlit fyrir mikið fjör á fjölum íþróttahúsanna á næstu vikum. Ekki væri ólíklegt að liðin gætu hist í úrslitakeppninni. Það væri draumur þeirra beggja.

Ljúffengur matur fyrir leik í boði Ship O Hoj. Gunnar Örlygsson á spjalli við þrjá Grindjána.

Dagbjartssynir óvenju spakir á þessari mynd.

Bæjarstjórarnir Kjartan og Róbert nutu matarins og leiksins á eftir. Þeir heilsuðu leikmönnum.