Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

CrossFit-tímabilinu lokið hjá Söru Sigmunds
Sara Sigmundsdóttir keppir ekki meira í ár. Mynd af Facebook-síðu Söru.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 15. mars 2021 kl. 12:38

CrossFit-tímabilinu lokið hjá Söru Sigmunds

CrossFit-afrekskonan Sara Sigmundsdóttir var fyrir því óhappi að meiðast illa á æfingu nýlega. Hún hefur undirgengist rannsóknir sem staðfesta að um slitin krossbönd sé að ræða. Sara segir í Facebook-færslu að hún sé að upplifa sína verstu martröð en það er ljóst að CrossFit-tímabilinu er lokið hjá henni í ár.

„Ég er enn að átta mig á því að þetta hafi gerst í raun og veru og að ég muni ekki taka þátt í CrossFit-tímabilinu 2021. Bataferlið krefst þess að ég gangi samstundis undir aðgerð og svo taka við mánuðir af endurhæfingu. Þegar hlutirnir skýrast betur mun ég segja frá framvindu mála,“ segir Sara í færslu sinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölmargir hafa skrifað uppörvandi skilaboð við færslu hennar og það er ljóst að þeir eru margir sem styðja Söru og óska henni skjóts bata.

Sara segist jafnframt vera þakklát fyrir þann stuðning sem henni hefur verið sýndur af samherjum og stuðningsaðilum – og auðvitað öllum aðilum sem hafa stutt hana í gegnum súrt og sætt en hún segir þá hafa verið hennar helstu hvatningu síðan hún byrjaði í íþróttinni.

Að lokum segir Sara: „Þetta er mín áskorun núna. Áskorun tekið,“ og það er augljóst að kraftakonan Sara Sigmundsdóttir er ekkert á þeim buxunum að gefast upp.