Craion áfram með Keflvíkingum
Keflvíkingar hafa samið að nýju við Bandaríkjamanninn öfluga Michael Craion sem lék með liðinu í fyrra. Craion var afar drjúgur í liði Keflvíkinga í fyrra og er þetta því mikill styrkur fyrir liðið í komandi baráttu.
Á heimasíðu Keflavíkur segir:
„Keflavík gekk í dag frá samningi við Michael Craion um að hann leiki með liðinu á komandi vetri. Þrátt fyrir að gengi Keflavíkurliðsins hafi ekki verið nógu gott á síðasta tímabili var Michael einn af jákvæðu punktum tímabilsins. Honum óx gríðarlega ásmeginn þegar líða tók á tímabilið og endaði hann með 22 stig, 13 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Hér er um gríðarlega jákvæðar fréttir að ræða og mikil ánægja innan herbúða Keflvíkinga með að Michael hafi verið tilbúinn að taka slaginn með liðinu á nýjan leik.
Það er annars að frétta af liðinu að leikmannamál eru við það að klárast og þá er nýráðinn þjálfari félagsins, Andy Johnston, væntanlegur til landsins í vikunni en Gunnar Stefánsson, aðstoðarþjálfari, hefur stýrt æfingum liðsins með vaskri hendi í fjarveru Andy. Þá hafa nokkrir leikmenn liðsins verið í styrktarþjalfun undir handleiðslu eins besta einkaþjálfara landsins, Gunnars Einarssonar, í sumar og má því búast við þeim nokkrum vel tilbúnum.“