Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

  • Búum til góða einstaklinga
    Gunnlaugur Hreinsson, formaður UMFG.
  • Búum til góða einstaklinga
Fimmtudagur 5. júní 2014 kl. 10:15

Búum til góða einstaklinga

Blómstrandi íþrótta- og forvarnastarf í Grindavík.

Íþróttafélag Grindavíkur, UMFG, var stofnað árið 1935. Gunnlaugur Hreinsson hefur æft og þjálfað íþróttir og setið í stjórnum hér íþróttadeilda í rúm 40 ár, eða síðan árið 1972. Honum finnst skemmtilegast að þjálfa því hann segir að það gefi honum mest; að hjálpa öðrum að ná árangri.

Erfiðast að ráða góða þjálfara
„Börn eru þakklát. Maður er að ala upp góða einstaklinga og sér þá marga skila sér góðum út í þjóðfélagið. Þá finnst manni maður eiga einhvern þátt í því, hvort sem um er að ræða sem íþróttafólk og persónur. Íþróttir eru ekki aðalmálið, heldur að búa til góðan einstakling,“ segir Gunnlaugur. Sjö deildir eru starfandi innan UMFG og Gunnlaugur segir starfið ganga almennt mjög vel, sérstaklega í yngri deildum, og allar deildir hugsi vel um reksturinn. „Eina vandamálið er að ráða góða þjálfara. Það tekst ekki alltaf nógu vel því við þurfum að kaupa þá annars staðar frá. Aðstaðan í sumum deildum, sérstaklega fimleikum, er ekki nógu góð og þ.a.l. ekki spennandi fyrir þjálfara.“ Meistaraflokkarnir séu síðan sér hluti sem menn séu alltaf að berjast fyrir og sama fólkið hafi staðið í því lengi. Byggð hafi verið upp starfsemi og aðstaða sem haldið hafi hópunum saman. Einnig sé erfitt að fá fólk til að starfa sem stjórnendur í minni deildum vegna bókhaldsvinnu. Þau vilji getað stundað það sem þau eru góð í. „Við erum orðin það stórt félag að það er nauðsynlegt að hafa starfsmann sem sér um bókhaldið.“  



Nýbyggingin verður bylting
Grindavík er um 3000 manna samfélag sem Gunnlaugur segir að starfi vel saman sem heild og standi saman. „En við erum stundum of gagnrýnin á okkur sjálf. Það er erfitt stundum að búa í litlu bæjarfélagi og sum mál taka á. Sérstaklega hefur tekið á þessi nýbygging og deildunum finnst aðalstjórn ekki hafa staðið með sínu máli.“ Deildirnar horfi á hlutina frá ólíku sjónarhornum og aðalstjórnin verði að sigla á milli og gæta hlutleysis. „Það er sífellt verið að skamma okkur og sumir geta tekið slíku persónulega því allir eru að gera sitt besta,“ segir Gunnlaugur og bætir við að opinberar deilur um bygginguna hafi sjálfsagt ekki góð áhrif á íþróttahreyfinguna. Fólk sé kannski orðið á móti byggingunni. „Það er ekkert að henni en það hefur verið erfitt að ná samstöðu um hana vegna ólíkra sjónarhorna og skoðana. Menn verða bara að bíta í það súra og fara í gegnum mótlætið. Svo kemur bara reynsla á þetta. Þetta verður bylting og umbreyting á svo margan hátt.“

Foreldrasamstarf undirstaða
Íþróttamannvirkið mun eðlilega breyta íþróttastarfinu í Grindavík töluvert og auðvelda eflingu foreldrastarfs. Aðstaðan eins og hún er í íþróttahúsinu í dag býður upp á lítið pláss fyrir foreldra. Í nýju byggingunni verður anddyri og góð aðstaða fyrir alla. „Undirstaða þess að fá börn til að æfa sem mest er að fá foreldra til að vera með. Til þess þurfum við góða aðstöðu. Það mun bætast til muna,“ segir Gunnlaugur. Einnig hái sumum deildum að þeir sem starfi í þeim geri það heima hjá sér og hitti þ.a.l. lítið þá sem starfi í öðrum deildum. „Það hefur svo mikið að segja með allt félagssamband að rekast hvert á annað. Og það hefur síðan áhrif á samfélagið.“

Gott bakland lykilatriði
Spurður út í grindvíska áhangendur og bakland segir Gunnlaugur að það sem stýri íþróttahreyfingarinnar mikið og hafi áhrif á velgengni séu fyrirtækin í bænum. „Útgerðarfyrirtækin styrkja vel fjárhagslega, sérstaklega körfuna og fótboltann. „Þannig getum við staðið okkur. Svo er Grndavíkurbær í unglingastarfinu með því að veita 30-50 þúsund á hvern haus. Foreldrar greiða 22.500 kr og þá má barnið æfa allar íþróttir. Það gerist ekki mikið ódýrara.“ Eftir að þetta kerfi kom á segir Gunnlaugur að aðalstjórnin sé orðin sterkari í því að vinna saman og nýta hlutina saman. Næsta skref hjá bænum og UMFG telur hann gæti orðið að ráða íþróttafulltrúa í hálft starf. „Þannig fáum við meiri fagmennsku inn í það að stofna foreldraráðin og reka þessi mót og svoleiðis. Þá verð ég ánægður.“ Gunnlaugur brosir.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Eigum fjölda meistara
Markverðast við þann tímapunkt að Grindavík stendur á fertugu segir Gunnlaugur vera hversu framarlega bærinn stendur er varðar árangur. „Við höfum eignast Íslandsmeistara og bikarmeistara bæði í kvenna- og karlaflokki í körfu. Knattspyrnudeildin fór upp í efstu deild og spilaði þar í einhver 10 ár. Það er afrek. Síðan eigum við ótal fjölda Íslandsmeistara í júdó.“ Í júdódeildinni þjálfaði sami maðurinn í yfir 40 ár þar til sonur hans tók við. „Litlu deildirnar byggjast á einstaklingum. Íslendingar leggja miklu meira í unglinga- og barnastarf í íþróttum en annars staðar í heiminum. Þeir hafa fyrir löngu séð kostina við það að virkja unga fólkið og meta forvarnagildið.“

Mikilvægur forvarnasjóður
Í því samhengi nefnir hann forvarnasjóð sem stofnaður var árið 2010 eftir að fyrirtækið Grindin gaf UMFG veglegan fjárstyrk tveimur árum fyrr. „Á afmælisárinu stofnuðum við sjóðinn og Grindavíkurbær bætti við fjárhæð. Fjórar manneskjur reka sjóðinn og hafa unnið gríðarlega gott starf í eineltis- og forvarnamálum. Það hefur vakið tölurverða athygli. Þjálfarar eru t.a.m. í jökkum þar sem slagorð er aftan á NEI við einelti. Næst á að taka á mataræði. Ég er einna stoltastur af því að hafa komið á stofn þessum sjóði,“ segir Gunnlaugur að lokum.

VF/Olga Björt