Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Burst í Hellinum og Keflavík í metabækurnar
Sunnudagur 13. apríl 2008 kl. 20:56

Burst í Hellinum og Keflavík í metabækurnar

Blað var brotið í íslenskri körfuknattleikssögu í dag þegar Keflvíkingar urðu fyrsta liðið til þess að jafna einvígi í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 2-0 undir. Keflavík veitti spútnikliði ÍR aðra rassskellingum í Hellinum í dag 79-97 og náðu þar með að jafna metin og knýja fram oddaleik sem fram fer í Toyotahöllinni á miðvikudagskvöld. Tommy Johnson átti aðra magnaða frammistöðu fyrir Keflavík sem og hinn öflugi Þröstur Leó Jóhannsson. Tommy var með 28 stig og Þröstur 19 en allt Keflavíkurliðið lék vel sem ein heild og léku stífan körfubolta þar sem ÍR-ingar höfðu ekkert erindi.
 
Í upphafi leiks benti allt til þess að heimamenn ætluðu að stinga af í Hellinum en ÍR komst í 15-6 og þá voru tvær og hálf mínúta eftir af fyrsta leikhluta. Tommy Johnson kom þá af varamannabekk Keflavíkur og lét hann strax til sín taka. Raðaði niður þriggja stiga körfum og hleypti nýju blóði í leik Keflavíkur á meðan ÍR-ingar lyppuðust niður í sínum leik. Keflavík gerði 14 stig gegn tveimur frá ÍR síðustu tvær og hálfa mínútuna í fyrsta leikhluta og leiddu því 17-20 að honum loknum og heimamenn vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið.
 
Keflvíkingar léku á alls 9 leikmönnum í fyrsta leikhluta og um leið og þeir náðu stjórninni í leiknum var aðeins eitt lið á vellinum. Aftur létu ÍR-ingar bola sér út úr sínum leik, voru smeykir við að sækja á þétta vörn Keflavíkur og hittu illa úr opnu skotunum en á meðan gerðu Keflvíkingar allt rétt. Fundu heita manninn og spiluðu vel sem ein heild.
 
Þröstur Leó Jóhannsson lét strax að sér kveða er hann kom inn af bekknum fyrir Keflavík og kom deildarmeisturunum í 19-23 með þriggja stiga körfu. Sveinbjörn Claessen var að draga vagninn hjá ÍR í sókninni á meðan sterkir póstar á borð við Hreggvið og Ómar voru fjarri sínu besta.
 
Staðan í leikhléi var 39-48 fyrir Keflavík og yfirburðir Keflavíkur héldu áfram inn í síðari hálfleikinn. Félagarnir Sigurður Þorsteinsson og Þröstur Leó Jóhannsson stigu vart feilspor og ljóst að framtíð Keflavíkurliðsins er björt með þessa tvo kappa tilbúna til þess að taka við keflinu þó aðrir leikmenn liðsins séu ekki aldnir að árum.
 
Þriðji leikhluti var í raun sýning af hálfu Keflavíkur. Yfirburðir gestanna voru algerir og var nánast um niðurlægingu í hverri sókn að ræða svo ekki sé minnst á varnarleikinn. Þröstur Leó setti niður þrist og breytti stöðunni í 50-75 en staðan var 54-79 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Sveinbjörn Claessen var kominn með fimm villur í liði Keflavíkur og Hreggviður Magnússon var aðeins skugginn af sjálfum sér og því skyldi engan undra að ÍR hafi verið í stökustu vandræðum.
 
Fjórði leikhluti fór svo að mestu leyti í það að horfa á tímann renna niður. ÍR átti aldrei möguleika á að ógna forystu Keflavíkur. Til þess voru gestirnir of vel stemmdir og of ákveðnir. Anthony Susnjara lék aðein rúmar tvær mínútur í leiknum en hann meiddist í þriðja leiknum á föstudag og ljóst að hann hefur ekki náð fullum bata.
 
Lokatölur urðu eins og áður greinir 79-97 fyrir Keflavík sem með sigrinum stimpluðu sig fyrstir inn í þá metabók að geta jafnað einvígi 2-2 í úrslitakeppninni.
 
Tommy Johnson gerði 28 stig og var með 4 stoðsendingar en aftur var það Þröstur Leó Jóhannsson sem átti daginn með 19 stig og 7 fráköst en kappinn var einnig með frábæra nýtingu. Setti niður 5 af 6 teigskotum sínum, 2 af 3 þriggja stiga skotum sínum og 3 af 4 vítum sínum en hann var eins og á föstudag sem óður maður á vellinum og barðist í öllum boltum en sýndi engu að síður af sér mikla skynsemi og var ekki að reyna of mikið sjálfur heldur lék fyrir og með liði sínu.
 
Málin hafa heldur betur snúist við í höndum ÍR sem leiddu 2-0 og voru langflestir búnir að afskrifa Keflavík og víst má telja að það hafi ÍR-ingar einnig verið búnir að gera og það gætu verið einhver dýrkeyptustu mistök sem þetta skemmtilega lið hefur gert í árabil.
 
Nate Brown gerði 17 stig fyrir ÍR og gaf 11 stoðsendingar og tók 9 fráköst en honum næstir voru Sveinbjörn Claessen og Tahirou Sani með 14 stig og Hreggviður Magnússon var með 11.
 
Oddaleikurinn fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík á miðvikudag kl. 19:15 samkvæmt skipulaginu á vefsíðu KKÍ. Það lið sem vinnur þann leik mun leika til úrslita gegn Snæfell eða Grindavík.
 
VF-Mynd/ [email protected]Á efri myndinni sækir Tommy Johnson að körfu ÍR en á þeirri neðri fagna Keflvíkingar í leikslok.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024