Vörumiðlun
Vörumiðlun

Íþróttir

Búnir að æfa vel og standa okkur vel í leikjum
Sveinn Þór Steingrímsson stýrði Víði til sigurs í Fótbolti.net-bikarnum á síðasta ári – hann hyggst verja titilinn í ár. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. maí 2024 kl. 06:09

Búnir að æfa vel og standa okkur vel í leikjum

– Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Víðis, er jákvæður á gengi Víðis í ár.

„Tilfinningin fyrir sumrinu er góð og við stefnum hátt eins og alltaf,“ segir Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Víðismanna. Víðir blandaði sér í toppbaráttu þriðju deildar á síðasta tímabili en vantaði herslumuninn til að komast upp. Víðismenn náðu frábærum árangri í Fótbolti.net-bikarnum, bikarkeppni neðri deilda, og urðu fyrstir liða til að hampa bikarnum með sigri á KFG á Laugardalsvelli.

Halda ágætis kjarna

„Andinn er góður og liðið að smella saman. Við erum búnir að æfa vel og standa okkur vel í leikjum þannig að það er mikill spenningur fyrir deildarkeppninni.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þið hafi náttúrulega augastað á því að fara upp.

„Já, það er verkefni sem gekk ekki upp í fyrra enda ellefu önnur lið í sömu deild með sama markmið. Þetta er bara keppni. Þetta er klárlega það sem við stefndum að í fyrra en tókst því miður ekki og það er nákvæmlega það sama og við ætlum að gera núna – en eins og ég segi þá eru önnur lið í þessari deild og við verðum að bera virðingu fyrir því og mæta klárir í alla leiki.“

Sveinn segir talsverðar breytingar hafa orðið á hópnum frá því í fyrra, margir hættir eða farnir að sinna öðrum málum. „Við náðum samt að halda ágætis kjarna. Við vorum ánægðir með erlendu leikmennina okkar í fyrra og þeir eru allir áfram nema einn sem þurfti að sinna öðrum verkefnum í heimalandi sínu. Við þurftum því að sækja leikmenn, bæði íslenska og erlenda, og svo fengum við líka unga stráka hérna frá okkur sem við ákváðum að prófa. Það eru breytingar en mjög jákvæð stemmning yfir hópnum.“

Hvaða spennandi leikmenn hafið þið fengið?

„Þetta eru auðvitað allt spennandi leikmenn og ég vil ekki fara að gera upp á milli þeirra en við fengum til dæmis David Toro Jimenez, þennan sem skoraði þetta stórkostlega mark á móti Víkingi í bikarnum um daginn,“ segir Sveinn Þór. „Við sáum eiginleika í honum sem við töldum gagnast okkur. Hann er búinn að spila þrjá leiki og skoraði reyndar annað stórkostlegt mark á móti Sindra í fyrstu umferð bikarsins. Virkilega fallegt mark þar sem hann klíndi hann í skeytin, niður á línu og upp aftur. Hann gæti orðið mjög skemmtilegur leikmaður fyrir okkur í sumar.“

David Toro Jimenez skoraði ótrúlegt mark, beint úr aukaspyrnu á miðjum eigin vallarhelmingi, til að koma Víði í forystu gegn Víkingi. Skjáskot/RÚV

Sveinn segir að fleiri leikmenn hafi gengið til liðs við Víði. „Við fengum Markús Mána Jónsson til okkar, framherja sem kom frá Árbæ sem er búinn að skora mikið fyrir okkur á undirbúningstímabilinu. Við höfum einnig fengið unga og spennandi stráka frá Njarðvík og Keflavík og svo eru líka strákar sem koma upp úr öðrum flokki hjá okkur. Það bönkuðu líka tveir útlendingar sem búa hérna upp á hjá okkur og fengu að koma og æfa með okkur og svo kom óvænt upp nýlega reyndar bandarískur varnarmaður úr háskólaboltanum sem er á leiðinni til okkar. Ég bind miklar vonir við hann, hann lítur alla vega mjög vel út á blaði,“ segir Sveinn sem hefur trú á að Víðisliðið fari upp í ár. „Og við munum gera okkar besta til að verja titilinn í Fótbolti.net-bikarnum.“