Brynjar Örn leggur skóna á hilluna
Nú er orðið ljóst að knattspyrnumaðurinn Brynjar Örn Guðmundsson verður ekki með Keflavík í sumar en hann hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Brynjar sem er 30 á árinu er Keflvíkingur í húð og hár og lék með öllum yngri flokkum Keflavíkur og þá jafnan sem bakvörður.
Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2001 en árið 2004 söðlaði hann um og skipti yfir í Reyni Sandgerði. Brynjar gekk aftur í raðir Keflavíkur árið 2008 og hefur leikið með liðinu síðan. Hann hefur leikið 65 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim fjögur mörk. Þá hefur Brynjar leikið 10 bikarleiki og skorað í þeim eitt mark auk tveggja Evrópuleikja og 35 leikja í Deildarbikarnum.
Keflavík.is greinir frá.
Mynd: Jón Örvar Arason