Brynjar Björn Gunnarsson tekur við Grindavík
Brynjar Björn Gunnarsson skrifaði rétt í þessu undir samning við Knattspyrnudeild Grindavíkur og mun stýra karlaliði félagsins út þetta tímabil og það næsta.
Brynjar þjálfaði síðast lið Örgryte í Svíþjóð og er spenntur fyrir komandi verkefni. „Þetta kom fljótt upp, ég heyrði í Grindvíkingum í gærmorgun og átti góðan fund með þeim. Ég hafði ekki langan tíma til umhugsunar og hér er ég í dag og stýri minni fyrstu æfingu á eftir. Það er leikur strax á morgun svo mér gefst ekki mikill tími til undirbúnings en nú gildir bara að þjappa mönnum saman og liðið sýni góða frammistöðu á móti Vestra. Ég tel leikmannahópinn vera sterkan en þarf auðvitað að meta hann sjálfur.
Ég hef áður tekið við liði í þessari stöðu, tók við Örgryte í Svíþjóð fyrir rúmu ári síðan og þar var staðan ekki góð, liðið var neðst og við björguðum okkur frá falli. Staðan hjá Grindavík er ekki eins slæm en gengið hefur verið slæmt að undanförnu og fyrsta takmarkið er að koma okkur frá fallsætunum en það er nóg eftir af mótinu. Ef leikmenn og allir í kringum félagið koma sér saman um að gera hlutina vel, getur þetta tímabil endað mjög vel. Þegar ég kem inn í eitthvað svona blint geri ég hlutina sem ég er vanur að gera, það hefur gefið góða raun. Ég þarf ekkert að kynna mér hvernig hlutirnir hafa verið til þessa, ég set bara upp mitt æfingaprógramm og kem mínum áherslum til skila, mögulega verða það einhverjar breytingar fyrir suma. Ég vil hafa tempó og læti á æfingum hjá mér, það þarf að hafa fyrir hlutunum og ef menn eru tilbúnir í það getum við gert góða hluti. Þeir sem er ekki tilbúnir í það, munu spila minna.
Það verður skemmtilegt að mæta í þennan leik á morgun, þetta er eins og í fyrra hjá mér í Svíþjóð, þá hafði ég lítinn tíma en þarf sem betur fer ekki að fara á milli landa. Nú er bara að berja sjálfstraust í mannskapinn og þeir hafi trú á verkefninu, leikmenn verða að mæta frískir og klárir í leikinn á morgun og svo skoðum við framhaldið,“ sagði Brynjar Björn.