Bryndís gengin til liðs við Íslandsmeistara Snæfells
	Einn af lykilleikmönnum Keflavíkurliðsins í körfubolta kvenna, Bryndís Guðmundsdóttir hefur gengið til liðs við Íslandsmeistara Snæfells frá Stykkishólmi. Bryndís var ekki að ná saman með sínu gamla félagi nú í leiktíðarbyrjun en hvorki hún, Margrét Sturlaugsdóttir, nýr þjálfari liðsins sé stjórn félagsins hafa sagt hvað hver hafi verið ástæðan fyrir óánægjunni á milli aðila. Þrálátur orðrómur hefur verið á þá leið að Bryndís og Margrét þjálfari hafi ekki náð saman.
	
	Óvissa var því í kringum mál Bryndísar þar sem hún var með samning við Keflavík en í gær var gengið frá málum þannig að hún fer til Stykkishólms. „Við náðum samkomulagi við Keflvíkinga varðandi Bryndísi sem verður ekkert rætt meira." sagði Ingi Þór Steinþórsson í snörpu spjalli við Karfan.is
	Bryndís er í svokölluðum „Blikapakka“ segir karfan.is en þá æfir hún með Breiðabliki en spilar með Snæfelli. Dæmi sem Snæfell hefur notað með fleiri leikmenn og gengið vel.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				