Brostnir draumar í Voga-tippinu
Blaðamaður Víkurfrétta kíkti í heimsókn á tippstaðina í Grindavík og Vogum í dag og tók hús á tippurum.
Með miklar væntingar í farteskinu þegar komið var til Voga þar sem áskorandi dagsins í tippleik Víkurfrétta, Petra Ruth sem er úr Vogum, hafði verið með digurbarkalegar yfirlýsingar varðandi bakkelsi. Það er skemmst frá því að segja að hún kom verkefninu yfir á stöllu sína, Lindu Sigurjónsdóttur og þar sem Petra gleymdi að segja Lindu frá því að það ætti að vera extra gott bakkelsi, varð lítið úr því. Linda hins vegar kom við í bakarýi og keypti nýbakað brauð og bauð upp á salat og þess vegna var þetta ekki fýlu ferð.
Í Grindavík þráttuðu Gunnar Már Gunnarsson sem hefur séð um tippið í Gula húsi Grindvíkinga, nánast frá upphafi og í byrjun með Sigurbjarti Loftssyni, og Bjarni Andrésson um hinn svokallaða stóra seðil hússins en þá býðst tippurum að kaupa hlut í kerfi hússins og kostar hluturinn 1.500kr. Bjarni sem er hokinn af reynslu og er Arsenal aðdáandi, skyldi ekki í Gunna að festa sigur á Watford á útivelli á móti Huddersfield. Gunnar Már sýndi þá niðurstöðu síðustu helgar, þar fékk kerfið 11 rétta en Bjarni einungis 7 rétta. Bjarni var hins vegar fljótur að snúa vörn í sókn, benti á kostnaðinn við stóra seðilinn sem var rúmar 100 þúsund krónur en einungis komum 1400 krónur í vinning. Hann vildi meina að hann hefði gert betri hluti á sinn seðil sem kostaði einungis 1500 kr.
Víkurfréttir birta síðan úrslitin í leik dagsins á milli Evu og Petru, þegar lokaleik kvöldsins á milli Newcastle og Arsenal er lokið.