Brittanny og Thelma Dís bestar
- Körfuboltakvöld valdi lið 9. umferðar
Þær Brittanny Dinkins og Thelma Dís Ágústdóttir, leikmenn Keflavíkur í Domino´s- deild kvenna í körfu, voru valdar í lið 9. umferðar í körfuboltakvöldi á dögunum. Brittanny hefur verið fantagóð með liði Keflavíkur undanfarin misseri en hún var einnig valin besti maður umferðarinnar, í annað sinn í vetur. Í níundu umferð var Brittanny með 35 stig, 9 fráköst, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta þegar liðið sigraði Val. Hún skoraði einnig sex stig í 11-4 endaspretti Keflvíkinga í leiknum. Thelma Dís var valin leikmaður 8. umferðar og það er því óhætt að segja að þær stöllur séu að gera það gott inn á vellinum þessa dagana.
Keflavík sigraði lið Breiðabliks í tíundu umferð Domino´s deildarinnar og náðu fram hefndum frá fyrri leik liðanna. Með sigrinum vann Keflavík sinn fjórða leik í röð. Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn til sín TM-höllina þann 2. desember nk. og hefst leikurinn kl. 16:30.