Bristol með þrefalda tvennu í sigurleik
Keflavík sigraði Njarðvík í gærkvöldi, 51-74, í 1. deild kvennakörfunnar og virðist ekkert lát ætla að verða á sigurgöngu þeirra. Kristín Blöndal var á nýjan leik í liði Keflavíkur eftir að hafa verið frá vegna barneigna. Miðherji Njarðvíkinga, Helga Jónasdóttir, var ekki í liðinu að þessu sinni vegna veikinda en hún hefur tekið að meðaltali 10,7 fráköst í leik í vetur ásamt því að skora 7,7 stig að meðaltali.
Jamie Woudstra skoraði fyrstu stig leiksins en eftir það tók Keflavík völdin og breytti stöðunni í 10-21 eftir fyrsta leikhluta. Njarðvíkurstúlkum gekk illa að finna leið að körfu Keflavíkur en þegar rúm mínúta var liðin af öðrum leikhluta fór Reshea Bristol útaf með 3 villur. Það nýttu Njarðvíkurstúlkur sér sem sigruðu annan leikhluta 17-16 og héldu liðin til leikhlés í stöðunni 27-37.
Birna Valgarðsdóttir, sem gerði 24 stig í leiknum, opnaði seinni hálfleik með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 27-40. Eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik fékk Ingibjörg Vilbergsdóttir sína fjórðu villu hjá Njarðvík en þrátt fyrir það náðu heimamenn að minnka muninn í sjö stig, 35-42, en lengra komust þær ekki. Þriðja leikhluta lauk 42-55 en í þeim fjórða kom reiðarslagið.
Í fjórða leikhluta gekk ekkert upp hjá Njarðvíkurstúlkum og töpuðu þær alls 11 boltum í leikhlutanum og samtals 24 í öllum leiknum. Keflavík spilaði grimma vörn og kláruðu þær leikinn örugglega 51-74 og verma sem fyrr efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga.
Birna Valgarðsdóttir gerði 24 stig í leiknum en Reshea Bristol var með þrefalda tvennu, 15 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Vera Janjic var atkvæðamest í liði Njarðvíkur með 15 stig.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Jón Björn