Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Breytingar í Röstinni: Griffin á heimleið
Föstudagur 29. febrúar 2008 kl. 11:39

Breytingar í Röstinni: Griffin á heimleið

Grindvíkingar hafa gert breytingu á karlaliði sínu í Iceland Express deildinni í körfuknattleik þar sem Jonathan Griffin mun ekki leika meira með liðinu í ár. Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga staðfesti þetta í samtali við Víkurfréttir. Friðrik sagði að um taktíska breytingu væri að ræða og hefur nú fengið til liðs við sig Bandaríkjamanninn Jamaal Williams sem er tæpir 2 metrar að hæð og er honum ætlað að auka styrk Grindavíkur í teignum.

 

,,Ég var ekki óánægður með Jonathan Griffin en það sem ég er að gera með þessu er að koma jafnvægi í liðið. Okkur vantar stig inn í teig því af 100 stigum sem við skorum eru 80 stig utan af velli. Ef við ætlum okkur einhverja hluti í úrslitakeppninni verðum við að fá leikmann inn í teig,” sagði Friðrik en Griffin er bakvörður og hefur skorað grimmt fyrir Grindavík í vetur með 23,2 stig að meðaltali í leik. Hann gerði 26 stig og tók 12 fráköst gegn ÍR í tapleik Grindvíkinga í Röstinni í gær.

 

Jamaal Williams útskrifaðist frá Washington háskólanum 2005-2006 þar sem hann lék m.a. með Brandon Roy sem í dag leikur í NBA deildinni. Hjá Washington skólanum var Williams með um 14 stig að meðaltali í leik á sínu loka ári. ,,Hann hefur líka leikið í Frakklandi, Argentínu og í CBA deildinni. Ég hef fulla trú á því að Williams passi inn í liðið en það er alltaf áhætta í svona aðgerðum. Ef maður þorir ekki að taka svona ákvörðun þá er eins gott að hætta þessu, ég bara stend og fell með þessu en núna tel ég okkur betur í stakk búna fyrir úrslitakeppnina,” sagði Friðrik Ragnarsson.

 

Igor Beljanski hefur verið nokkuð meiddur í vetur og taldi Friðrik að tími fyrir svona breytingar væri nú eða aldrei. ,,Griffin var að standa sig vel en það kom mest frá honum í gegnumbrotum eða utan af velli. Ef Igor eða Páll Kristinsson meiðast svo í úrslitakeppninni þá er þetta búið spil hjá okkur ef við höfum ekki meiri breidd í teignum. Við sjáum bara til hvernig þetta kemur út,” sagði Friðrik en Williams kom til landsins í morgun og mun leika sinn fyrsta leik með Grindavík gegn Snæfell á útivelli föstudaginn 7. mars næstkomandi.

 

Sjá einnig frétt um málið á heimasíðu Grindavíkur

 

VF-Mynd/ [email protected]Jonathan Griffin hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Grindavík. Við stöðu hans hjá gulum tekur Jamaal Williams.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024