Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Brenton og Jeb kláruðu KR
Mánudagur 26. febrúar 2007 kl. 21:55

Brenton og Jeb kláruðu KR

Njarðvíkingar eru komnir með fjögurra stiga forystu í Iceland Express deild karla í körfuknattleik eftir 83-73 sigur á KR í Ljónagryfjunni í kvöld. KR-ingar leiddu mestan part leiksins en Íslandsmeistararnir sýndu mikla seiglu í lokin og fóru með mikilvægan sigur af hólmi. Einstaklingsframtök Jeb Ivey og Brenton Birmingham í fjórða leikhluta skópu Njarðvíkursigurinn en þeir félagar gerðu mikilvægar körfur þegar á reið.

 

Gestirnir fóru á kostum í upphafi leiks og stálu boltanum þrisvar í röð af Njarðvíkingum sem vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar staðan var orðin 0-8 KR í vil. Edmund Azemi gerði tvær þriggja stiga körfur á upphafsmínútunum og var að leika frábæra vörn á Brenton Birmingham. Vörn KR var þétt og áttu Njarðvíkingar oft í basli með að koma boltanum inn í teig KR. Njarðvíkingar náðu að minnka muninn í 1.leikhluta í 19-24 en þá komu sex stig frá KR í röð og lauk leikhlutanum í stöðunni 19-28.

 

Annar leikhluti var fjarri því fagur, bæði lið léku grimma vörn og kom fyrsta karfa leikhlutans þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Körfuna gerði Fannar Ólafsson og kom KR í 19-30. Við körfuna frá Fannari vöknuðu Njarðvíkingar og minnkuðu muninn í 26-30. Barningurinn var mikill í teignum og um miðbik leikhlutans fékk Jeremiah Sola hjá KR sína þriðju villu og lék ekki meira í fyrri hálfleik. Njarðvíkingar tóku á sig rögg og minnkuðu muninn í þrjú stig fyrir hálfleik 33-36.

 

Friðrik Stefánsson, Brenton Birmingham og Jeb Ivey voru allir með sjö stig í hálfleik en Tyson Patterson var með 13 stig hjá KR. Fannar Ólafsson komst einnig í villuvandræði og hann ásamt Sola voru með 3 villur í hálfleik.

 

Snemma í fjórða leikhluta fékk Sola sína fjórðu villu og fékk að nýju að fara á tréverkið. Tyson Patterson sá til þess fyrir KR að þeir héldu forystunni en hann gerði á kafla sex stig í röð fyrir KR og reyndist varnarmönnum Njarðvíkinga erfiður ljár í þúfu. Undir lok leikhlutans náðu Njarðvíkingar í fyrsta sinn í leiknum að jafna metin og staðan 50-50 en KR gerðu síðustu stig leikhlutans og staðan því 50-52 fyrir KR og fjórði leikhluti framundan.

 

Brenton Birmingham og Jeb Ivey stigu rækilega upp í Njarðvíkurliðinu í fjórða leikhluta og í fyrsta sinn í leiknum komust Njarðvíkingar yfir með þriggja stiga körfur frá Brenton og staðan 58-55 Njarðvík í vil. Strax í næstu sók kom önnur þriggja stiga karfa og að þessu sinni frá Ivey og skyndilega voru Njarðvíkingar komnir með fjögurra stiga forystu, 61-55.

 

Meðbyrinn var Njarðvíkurmegin og á skömmum tíma tókst Njarðvíkingum að fá þá Fannar Ólafsson og Sola af vellinum, báða með fimm villur. Þegar skammt lifði leiks var staðan 75-71 fyrir Njarðvík og héldu heimamenn fengnum hlut og bættu í muninn og höfðu að lokum 10 stiga sigur 83-73.

 

Eftir slaka byrjun í kvöld náðu Njarðvíkingar að berja sig saman og hafa nauman sigur á baráttöglöðum KR-ingum. Varnir beggja liða voru til fyrirmyndar og það reyndist KR-ingum dýrkeypt hve fáir leikmenn liðsins lögðu lóð sín á vogarskálarnar í leiknum en aðeins fimm leikmenn KR komust á blað í kvöld. Þeirra stigahæstur var Tyson Patterson með 26 stig og 9 stoðsendingar. Jeb Ivey var stigahæstur í liði Njarðvíkinga með 27 stig.

 

Sigur Njarðvíkinga í kvöld var sá tólfti í röðinni og verma þeir nú toppsætið í Iceland Express deildinni með fjögurra stiga forskot á KR og Skallagrím.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-myndir/ Þorgils Jónsson – [email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024