Brenton með 30 stig í Njarðvíkursigri
Brenton Birmingham fór enn einu sinni á kostum í Ljónagryjunni og steig rækilega upp þegar hans menn þurftu á honum að halda. Brenton var vítamínssprautan sem Njarðvíkingar þurftu á að halda í kvöld er þeir rétt mörðu baráttusigur á Skallagrím. Lokatölur leiksins voru 95-91 Njarðvík í vil en gestirnir úr Borgarnesi leiddu mest allan leikinn. Brenton gerði 30 stig í leiknum og þar af 21 stig í síðari hálfleik. Njarðvíkingar eru nú á toppi Iceland Express deildarinnar með KR en bæði lið hafa 22 stig eftir leiki kvöldsins. KR-ingar lögðu Keflavík í DHL-Höllinni 92-83 og var þetta fjórði ósigur Keflvíkinga í röð í deildinni.
Igor Beljanski gerði fyrsta stig leiksins á vítalínunni og komust Njarðvíkingar snemma í 11-2. Borgnesingar létu það ekki slá sig út af laginu og minnkuðu muninn í 13-10. Við það tóku Njarðvíkingar aðra rispu og breyttu stöðunni í 22-13. Með góðum lokasprett í fyrsta leikhluta tókst Skallagrím að minnka muninn í 22-19 í lok leikhlutans.
Dimitar Karadzovski átti sterka innkomu í annan leikhluta hjá Skallagrím en Njarðvíkingar voru skrefi á undan til að byrja með. Í stöðunni 37-31 fyrir Njarðvík fóru gestirnir að síga á heimamenn og komust loks yfir í 44-47 þegar skammt var til hálfleiks. Pétur Már Sigurðsson setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð fyrir gestina og voru þeir einu stigi yfir í hálfleik 48-49.
Þriðji leikhluti var hnífjafn þar sem Jeb Ivey og Jovan Zdravevski voru báðir komnir með þrjár villur. Borgnesingar voru þó sterkari og höfðu yfir 67-73 þegar þriðja leikhluta lauk.
Í fjórða leikhluta virtust Borgnesingar ætla að stinga af og var staðan orðin 73-80 þegar Jóhann Árni Ólafsson og Brenton Birmingham settu niður sinn hvorn þristinn og minnkuðu muninn í eitt stig, 79-80. Baráttujaxlinn Halldór Karlsson jafnaði svo metin fyrir Njarðvík í 84-84 og hver annar en Brenton Birmingham kom Njarðvíkingum í 87-84 með þriggja stiga skoti.
Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka var staðan 91-89 Njarðvíkingum í vil og Skallagrímsmenn í sókn. Darrell Flake reyndi að gefa boltann inn á blokkina en þar kemur Brenton aðvífandi og stelur boltanum. Góð varnartilþrif sem höfðu úrslitaáhrif, slök sending frá Flake og Brenton var vel vakandi og stal boltanum. Njarðvíkingar skoruðu í næstu sókn og þar með var björninn unninn. Lokastigin í leiknum komu svo af vítalínunni, lokatölur 95-91.
Eins og fyrr segir var Brenton Birmingham með 30 stig fyrir Njarðvík og Jeb Mikel Ivey var með 20 stig. Þá átti Jóhann Árni Ólafsson einnig fínan dag í liði Njarðvíkur.
Hjá Skallagrím var Darrell Flake með 24 stig og Dimitar Karadzovski með 18 stig.
VF-myndir/ [email protected]