Brennur af áhuga
Flestir þekkja Kristrúnu Ýr Holm sem einn liðsmanna kvennaliðs Keflavíkur. Þessi 25 ára gamli leikmaður hefur verið öflug í vörn Keflvíkinga sem hafa tryggt sér sæti í efstu deild á næsta tímabili með því að leika frábæran fótbolta í sumar. Færri vita að samhliða krefjandi fótboltaferli hefur Kristrún lokið meistaranámi í líf- og læknavísindum og er í doktorsnámi þar sem rannsóknir hennar snúa að snemmgreiningu brjóstakrabbameins.
Kristrún Ýr er úr Garðinum og kann vel við sig þar. Hún ræddi við Víkurfréttir um fótboltann og sagði okkur frá náminu sem hún brennur fyrir.
„Já, ég hef alltaf búið í Garðinum. Það var mjög ánægjulegt að alast þar upp, rólegt og friðsælt – mér finnst það voðalega notalegt,“ segir Kristrún. „En það er svolítið langt að keyra því ég vinn í bænum.“
Námsvalið tengist fjölskyldusögunni
– Lífð hjá þér snýst ekki bara um fótbolta, þú ert á kafi í námi er það ekki?
„Jú, ég kláraði meistaranám í líf- og læknavísindum í vor og er núna í doktorsnámi í heilbrigðisvísindum.
Doktorsnámið mitt snýst um rannsóknir á brjóstakrabbameini, að finna lífmörk í blóði fyrir snemmgreiningu á brjóstakrabbameini Ég hef gríðarlegan áhuga á brjóstakrabbameinsrannsóknum en það er tilkomið út af því að í fjölskyldunni minni finnst BRCA1-stökkbreyting sem eykur m.a. líkur á brjóstakrabbameini. Það er þess vegna sem ég hef mikinn áhuga á brjóstakrabbameinsrannsóknum og held, eins og staðan er núna, að ég vilji vinna við í framtíðinni.“
– Varstu þá kannski löngu búin að ákveða hvert þú myndir stefna?
„Já, í rauninni. Sérstaklega þegar málefni eins og þetta er svona tengt manni, þá brennur maður óneitanlega meira fyrir því.“
– Þinn námsferill, hefur hann allur verið innanlands?
„Já, ég gekk í Gerðaskóla og eftir það fór ég í Versló. Þaðan fór ég svo í Háskóla Íslands og er þar ennþá. Doktorsnámið mitt er unnið í samstarfi við Imperial College í
London og því verð ég eitthvað úti í London líka en Covid hindrar það hinsvegar núna. Þetta er þriggja ára nám en það getur lengst, sérstaklega á þessum tímum – en það kemur í ljós.“
– Nú varð uppnám í sumar í sambandi við brjóstaskoðanir hjá Krabbameinsfélaginu og eftirvinnslu þeirra, hefur það einhver áhrif á þínar rannsóknir?
„Nei, þessar rannsóknir sem ég vinn að eru á vegum háskólans og alls ótengdar Krabbameinsfélaginu.“
– Ert þú sjálf með BRCA1-genið í þér?
„Nei, ég er ekki BRCA1-arfberi en systir mín, pabbi minn og bróðir eru það.“
– Hefur BRCA1 einnig áhrif á heilsu karla?
„Það getur haft áhrif á efri árum, þá getur það aukið líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini hjá karlmönnum. Svo eru helmingslíkur að þeir geta borið stökkbreytinguna til barna sinna.“
– Þegar fólk er svona upptekið þá hefur það væntanlega engan tíma til að stofna til fjölskyldu, eða hvað?
Kristrún hlær og svarar: „Ég á kærasta en engin börn eins og er.“
Kristrún hefur ekki bara áhuga á fótbolta og námi, hún á fleiri áhugamál.
„Ég hef gaman af því að skoða Ísland, finnst gaman að taka myndir af fallegum stöðum á Íslandi og í sumar gafst góður tími til þess að ferðast innanlands. Svo hef ég stundum verið að gera neglur, ég lærði það þegar ég var yngri og er af og til að sinna því í frítíma mínum.“
– Hvernig er það, hefurðu alltaf unnið með námi?
„Já, ég hef alltaf gert það. Í BS-náminu var ég að vinna í Lyfju í Keflavík. Svo fór ég að vinna° í Arion banka upp í flugstöð og var í hlutastarfi þar á meðan ég var í námi. Þetta krefst auðvitað skipulagningar en það gerist sjálfkrafa án þess að ég áttaði mig á því.“
Fer kannski aftur í framlínuna
Kristrún er að klára tíunda tímabil sitt með meistaraflokki Keflavíkur. Á þeim tíma hefur hún leikið 117 leiki í deild og bikar og skorað fimm mörk. Í sumar hefur Kristrún leikið þrettán deildarleiki og tvo í bikar. Kristrún hefur skorað eitt mark á þessu tímabili, það skoraði hún gegn Gróttu í síðustu umferð þar sem hún átti stórgóðan leik og var valin maður leiksins.
„Ég byrjaði að æfa fótbolta fimm eða sex ára með Víði og þegar ég var í þriðja flokki skipti ég yfir í Keflavík og hef spilað þar síðan.“
– Segðu mér, hefurðu alltaf verið í vörninni?
„Nei, ég byrjaði í rauninni sem sóknarmaður – var frammi og á kantinum. Ég var frammi í öllum yngri flokkunum en færðist út á kantinn þegar ég byrjaði með meistaraflokki. Svo dróst ég aftar á völlinn – í bakvörð, miðvörð og hef verið að flakka í þeim stöðum. Ég byrjaði reyndar einn leik frammi í sumar, kannski fer ég aftur fram – það er aldrei að vita. Ég er ekkert að hætta,“ segir Kristrún og hlær.
– Hvað finnst þér um tímabilið í ár?
„Þetta er búið að vera svolítið skrýtið tímabil, við fengum stutt undirbúningstímabil og vorum svolítið að undirbúa okkur á meðan á mótinu stóð. Við fengum útlendingana Celine og Paulu bara rétt fyrir mót og Claudiu um mitt mót. Við fengum því lítinn tíma til að læra inn á hver aðra. Þá misstum við mjög góða leikmenn eftir síðasta tímabil og þurftum að endurstilla okkur og breyta okkar leikstíl.Þrátt fyrir allt þetta þá getum við verið stoltar af okkar frammistöðu í sumar því það voru nokkrar hindranir sem við þurftum að yfirstíga. Við vorum með svolítið þröngan hóp og þurftum þess vegna að spila mikið á sömu leikmönnunum. Það getur haft afleiðingar í för með sér eins og meiðsli og þess háttar. Þar að auki var stutt á milli leikja sem jók álagið enn frekar.“
– Hvernig líst þér þá á að klára Íslandsmótið?
„Mér líst nokkuð vel á það. Í raun breytir þessi síðasti leikur engu fyrir okkur en það verður bara gaman að spila hann og svo tekur bara við að gíra sig upp fyrir næsta tímabil. Við erum bara spenntar fyrir því. Það er auðvitað svolítið skrýtið að taka frí í nokkrar vikur og spila svo einn leik í lokin.“
– Hefurðu trú á að þessu Covid-ástandi verði lokið fyrir næsta tímabil?
„Nei, það held ég ekki. Ég hef því miður enga trú á því en vonandi verðum við búin að ná betri tökum á faraldrinum þannig að næsta gangi betur fyrir sig,“ segir Kristrún Ýr að lokum, spennt fyrir keppni í efstu deild að nýju á næsta ári.
Kristrún er flott fyrirmynd sem sýnir það og sannar að með því að leggja hart að sér nær maður árangri, ekki bara á vellinum heldur utan hans líka, en það krefst mikillar vinnu, skipulagningar og úthalds – alveg eins og í fótboltanum.