Íþróttir

Breiðablik tók þrjú stig í Grindavík
Laugardagur 9. júní 2018 kl. 18:28

Breiðablik tók þrjú stig í Grindavík

Grindavík tók á móti Breiðablik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag og endaði leikurinn með 2-0 sigri Blika. Fyrir leikinn sat Grindavík í 1. sæti deildarinnar og Breiðablik í því fjórða. Will Daniels og Matthías Örn Friðriksson komu inn í byrjunarlið Grindavíkur í stað þeirra Nemanja Latinovic og Brynjars Ásgeirs Guðmundssonar.

Fyrri hálfleikur einkenndist af því að Blikar sóttu stíft að marki Grindvíkinga og sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur meðal annars í samtali við Víkurfréttir eftir leik að þeir hefðu verið stálheppnir með 0-0 jafntefli í fyrri hálfleik.
René Joensen fór meiddur af velli á 38. mínútu og í hans stað kom Alexander Veigar Þórarinsson. Eins og áður sagði var staðan 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Public deli
Public deli

Í seinni hálfleik hélt Breiðablik áfram að pressa að marki Grindavíkur og uppskáru mark á 62. mínútu með marki frá Sveini Aroni Guðjohnsen. Rodrigo Gomes Mateo hafði fengið gult spjald á 60. mínútu fyrir brot og Jóhann Helgi Hannesson kom inná fyrir Sito á 68. mínútu.

Breiðablik náði tveggja marka forystu á 70. mínútu með marki frá Gísla Eyjólfssyni. Grindavík gerði síðustu skiptunguna sína í leiknum á 81. mínútu þegar Marínó Axel Helgason kom inn á í stað Arons Jóhannssonar. Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en hvorugt lið náði að koma boltanum í netið í uppbótartíma og lokatölur leiksins því 2-0 fyrir Breiðablik.

Hilmar Bragi Bárðarsson tók meðfylgjandi myndir á leiknum í dag en aðstæður á Grindavíkurvelli voru ansi blautar en létt rok var í Grindavík í dag og dass af rigningu.

Mörk leiksins:
0-1 Sveinn Aron Guðjohnsen ('62)
0-2 Gísli Eyjólfsson ('70)