Bragðdaufur leikur í Hveragerði
Hamar og Keflavík mættust í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í gærkvöldi. Eftir bragðdaufan leik fór Keflavík með sigur af hólmi, 54-65. www.sunnlenska.is fylgdist með leiknum.
Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik en þær leiddu frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu og komust í 4-13 snemma í 1. leikhluta. Staðan var 12-19 að loknum fyrsta fjórðungnum en Keflavík skoraði átta fyrstu stigin í 2. leikhluta og komst í 12-27. Hamar lenti undir í fráköstunum og Keflavík átti annan hvern bolta undir körfunum. Hvergerðingar svöruðu þó fyrir sig undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 24-38 í leikhléinu.
Hamar skoraði aðeins tvö stig á fyrstu fimm og hálfri mínútu 3. leikhluta á móti fimmtán stigum gestanna sem komust í 26-53. Keflvíkingar voru greinilega búnir að gera út um leikinn í huganum því þær hættu að spila körfubolta eftir þennan góða kafla og hleyptu Hamri aftur inn í leikinn. Keflavík skoraði 11 stig á tæpum fimmtán síðustu mínútum leiksins og Hamar gekk á lagið.
Með 25-5 leikkafla saxaði Hamar jafnt og þétt á forskot Keflavíkur og eygðu loksins vonarglætu þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af 4. leikhluta en þá var munurinn kominn niður í níu stig, 49-58. Þá virtist ísinn búinn í vélinni hjá Hamri því þær fóru að endurtaka mistökin í sókninni frá því í fyrri hálfleik. Keflavík lokaði þannig leiknum nokkuð auðveldlega á síðustu þremur mínútunum eftir arfaslakar mínútur þar á undan.
Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 26 stig. Þrátt fyrir það hitti hún illa, sérstaklega í fyrri hálfleik en hún stóð sig betur í seinni og raðaði t.a.m. niður fjórum þristum á besta leikkafla Hamars. Marín Laufey Davíðsdóttir átti fínan leik í fyrri hálfleik og skoraði þá 12 stig en komst ekki á blað eftir hlé. Jenný Harðardóttir skoraði 9 stig og tók 7 fráköst eins og Marín.
Birna Valgarðsdóttir bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Keflavíkur. Hún skoraði 25 stig og tók 13 fráköst og Hamarskonur áttu í mestu vandræðum með hana undir körfunni. Birna hitti hins vegar illa fyrir utan og missti einbeitinguna eins og allt Keflavíkurliðið undir lokin. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 9 stig, Sara Rún Hinriksdóttir og Sandra Lind Þrastardóttir 7 og Jaleesa Butler 6. Butler hélt sig nokkuð til hlés í sókninni gegn sínum gömlu félögum en reif þó niður 14 fráköst af gömlum vana.