Bragðdaufur leikur hjá „gömlu“ Keflvíkurliði á Selfossi
Sjöunda jafntefli Keflvíkinga í sumar. Myndasyrpa úr leiknum.
Keflvíkingar gerðu sjöunda jafntefli sumarsins í Inkasso-deildinni í sumar þegar þeir mættu Selfyssingum á útivelli í gærkvöldi. Sigurbergur Elísson fékk besta færi leiksins á 23. mínútu þegar hann tók víti en markvörður Selfyssinga varði spyrnuna.
Vítið var eina alvöru marktækifæri leiksins og geta Keflvíkingar því nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt hana. Selfyssingar áttu nokkur þokkaleg færi í fyrri hálfleik þó svo gestirnir væru meira með boltann. Keflvíkingar voru síðan miklu betri aðilinn í seinni hálfleik en náðu ekki, þrátt fyrir að vera mun meira með boltann, að nýta sér það. Þeir áttu nokkrar ágætar tilraunir undir lok leiksins en fundu ekki leiðina inn fyrir marklínuna.
Keflvíkingar eru í 4. sæti deildarinnar en höfðu tækifæri á að skjóta sér í 3. sætið með sigri gegn Selfyssingum. Úrslit urðu mjög óvænt í þessari umferð deildarinnar því ekkert liðanna í fjórum efstu sætunum unnu.
Grindvíkingar eru í 2. sæti með 25 stig, fjórum á eftir KA sem er í efsta sætinu með 29 stig.
Einn stuðningsmanna Keflavíkur skrifaði á stuðningsmannasíðu liðsins á Facebook fyrir leikinn að sennilega hafi byrjunarliðið gegn Selfossi verið það elsta sem Keflavík hafi stillt fram. Meðalaldurinn var 30,6 ár. Honum fannst það áhyggjuefni og eins að ungir leikmenn hafi fengið mjög fá tækifæri í sumar.
Elsti maður vallarins hinn tæplega fertugi Jóhann Birnir Guðmundsson var með þeim frískustu hjá Keflvíkingum. Liðinu gekk illa að skapa sér góð marktækifæri í þessum leik og sýndi ekki að það eigi heima í efstu deild.