Borðtennis: Jóhann Rúnar á Evrópumeistaramóti á Ítalíu
Evrópumeistaramótið í borðtennis fatlaðra hefst í Genova á Ítalíu í dag en þar á meðal eru tveir íslenskir keppendur þeir Jóhann Rúnar Kristjásson, NES, og Tómas Björnsson, ÍFR. Þjálfari þeirra í ferðinni er Helgi Þór Gunnarsson en hópurinn hélt út á miðvikudag og þrátt fyrir nokkrar raunir í ferðinni eru kapparnir komnir til Genova á heilu og höldnu.
Nokkur vandræði urðu á farangri hópsins en hann skilaði sér á endanum og í gærdag tókst þeim félögum að ná inn tveimur æfingum. Önnur æfingin fór fram utandyra í 30 stiga hita en sú síðari fór fram í keppnishöllinni og gekk mjög vel að sögn Helga Þórs.
Í dag hefst svo keppnin í opnum flokki sem er útsláttarkeppni en þar mætir Jóhann Rúnar keppanda í flokki 3 en sá kemur frá Ísrael. Tómas dróst á móti keppanda frá Slóvakíu sem er í 10. flokki. Fyrirkomulagið í opnum flokki, útsláttarkeppnin, er miskunnarlaus og því þýðir ósigur að strákarnir eru úr leik en að lokinni keppni í opnum flokki hefst keppni í lokuðum flokkum.