Boltinn í kvöld: Grannaslagur í Grindavík
Þó nokkuð verður um að vera á knattspyrnuvöllum landsins í dag þar sem fjölmargir leikir fara fram.
Suðurnesjalið verða í eldlínunni þar sem ber e.t.v. hæst grannaslag GRV og Keflavíkur í efstu deild kvenna. Leikurinn fer fram á Grindavíkurvelli og hefst kl. 19.15, og er um mikilvægan leik að ræða fyrir heimastúlkur sem eru að berjast við að halda sér úr fallbaráttu, en Keflvíkingar, sem hafa verið alveg lánlausar í sumar og án stiga, eru svo gott sem fallnar og hafa lítið að spila upp á nema heiðurinn.
Í Garði taka svo Víðismenn á móti ÍH/HV í 2. deild karla og hefst sá leikur kl. 19, en á meðan sækir topplið Reynis Hamar heim í Hveragerði og Njarðvíkingar fara vestur á firði þar sem þeir mæta BÍ/Bolungarvík.
Loks leika Þróttarar úr Vogum gegn Augnablikum í Kópavogi, en sá leikur er í 3. deildinni.