Boltinn á morgun: KR mætir í Keflavík - Grindvíkingar fara í Kaplakrika
Grindvíkingar leika á morgun sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu síðan obbinn af liðinu lagðist í flensu í síðustu viku. Þá sækja þeir meistara FH heim í Kaplakrika þar sem Grindvíkingar unnu frækinn sigur í fyrrasumar.
Á meðan taka Keflvíkingar á móti KR í stórleik, en viðureignir þessara liða hafa jafnan verið spennandi og skemmtilegar.
Á vef Grindvíkurliðsins er vakin athygli á að dómari leiksins í Kaplakrika á morgun er Þorvaldur Árnason, sem vakti almenna óánægju í Grindavík með frammistöðu sinni í leik þeirra gegn Fjölni fyrr í sumar þar sem Fjölnir vann umeildan sigur.
Segir á síðunni að „fróðlegt“ verði að sjá hvernig honum haldist á flautunni, en umsjónarmenn umfg.is vekja einnig athygli á misskiptingu beinna útsendinga þar sem Grindavík og önnur lið hafa borið skarðan hlut frá borði þar sem t.d. hefur aðeins verið sýnt beint frá tveimur leikjum liðsins í sumar.
Leikirnir hefjast annars kl. 16.
Mynd úr safni VF - Grindvíkingar mæta á völlinn að nýju eftir flensu