Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Boltaspjall við Erlu Reynisdóttur
Miðvikudagur 23. mars 2005 kl. 15:40

Boltaspjall við Erlu Reynisdóttur

Erla Reynisdóttir byrjaði leikferil sinn ung, þá í treyju Keflvíkinga árið 1994 í 1. deild kvenna í körfuknattleik. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú er hún að leika með Grindvíkingum og hefur átt gott tímabil með þeim í 1. deild kvenna í vetur. Grindvíkingar töpuðu í úrslitaleik gegn Haukum í bikarnum sem kunnugt er en náðu að hefna ófaranna með því að slá Hauka úr úrslitakeppni 1. deildar, 2-0. Víkurfréttir ræddu við Erlu um leiktímabilið og komandi átök í úrslitunum. Viðtalið við Erlu var tekið fyrir leik Keflvíkinga gegn Stúdínum sem fram fór í gær og var því ekki ljóst hvort Erla og félagar í Grindavík myndu mæta Keflvíkingum eða Stúdínum í úrslitum þegar viðtalið var tekið. 

Þú hlýtur að vera virkilega ánægð með að slá Hauka út í undanúrslitum? Já, þetta var rosalega skemmtilegt, sérstaklega eftir bikarleikinn að ná fram smá hefnd. Bjóst örugglega enginn við því nema við að við myndum ná að slá Hauka út 2-0.

Er liðið að smella saman á réttum tíma? Já, vonandi er þetta loksins að koma hjá okkur, við erum með rosalega góðan mannskap og hefðum átt að sýna meira í vetur. 

Er Rita Willams að falla vel inn í liðið? Hún var alls ekki sátt við fyrsta leik sinn með okkur og sagði það við okkur að hún hafi ekki verið að sýna sitt rétta andlit, sem hún mjög greinilega sannaði.

En liðið er langt frá því að treysta á einn einstakling? Já langt í frá, en hinsvegar gerir Rita okkur hinar betri með sér, hún er mikill leiðtogi á vellinum og það var eitthvað sem Myriah Spence var ekki að skila af sér og það hefur hjálpað okkur rosalega að fá eins reynslumikinn leikmann eins og Ritu.

Þið hljótið að vera virkilega hungraðar í titilinn eftir bikartapið? Við erum mjög hungraðar í að verða Íslandsmeistarar, og að geta skilað einhverju eftir þennan vetur væri alveg frábært og þessi titill er náttúrulega sá stærsti á árinu og vonandi erum við að toppa á réttum tíma.

En framhaldið, er eitthvað óska lið sem þú villt fá í úrslitin? Það er auðvitað mjög sterkt að geta fengið heimaleikjaréttinn gegn Stúdínum en ég held að það yrði rosalega gaman að fá Keflavík, það yrði alls ekki verra að taka titilinn af þeim. 

Hefurðu engar blendnar tilfinningar til Keflavíkur? Jú, auðvitað hef ég það en það er náttúrulega alltaf jafn sætt að vinna þær, þar sem maður kemur upphaflega úr þessu liði, en það hefur ekki gerst nema einu sinni í vetur en ég held að það yrði mjög skemmtileg rimma að fá Suðurnesjaslag.

Ertu ekki sátt við tímabilið í heild sinni hjá þér? Jú jú, það er samt aldrei gaman að spila vel þegar liðið er ekki að spila vel, en ég er búin að vera að spila betur núna heldur en á síðasta tímabili og er ágætlega sátt við það. Ég var í einhverri lægð samt í þessari rimmu gegn Haukum, en það getur auðvitað komið fyrir.

Á svo ekki að mæta á leikinn hjá Keflvíkingum gegn Stúdínum? Það var einmitt planið að taka leikinn gegn Haukum þannig við gætum farið og horft á stelpurnar, þetta verður massa leikur. Úrslitakeppnin er búin að sýna það að kvennaboltinn er kominn með meiri breidd, fjögur lið hefðu auðveldlega getað orðið Íslandsmeistarar sem er nýbreytni í kvennaboltanum.

 

VF-Mynd: Úr fyrsta leik Grindvíkinga í undanúrslitum gegn Haukum í Röstinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024