Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Boltaregnið
Föstudagur 23. júní 2006 kl. 16:16

Boltaregnið

Samstarf Knattspyrnusambands Íslands og Landsbankans hefur vart farið fram hjá fólki en auglýsingar má finna því til staðfestingar í vel flestum miðlum landsins. Sjónvarpsauglýsingar í stuttmyndalengd hafa að venju verið íburðamiklar og má sjá nafntogaða Íslendinga leika listir sínar á knattspyrnuvellinum.

Einn liður í samstarfi KSÍ og Landsbankans er sá að fyrir hvern einasta leik í Landsbankadeild karla er boltum sparkað af leikmönnum upp í áhorfendastúku og þeir sem grípa boltana mega eiga þá. Skemmtilegt framtak og jafnan má sjá bros á vörum þeirra sem eru það heppnir að ná til boltanna á undan öllum öðrum.

Boltunum er sparkað upp í áhorfendastúkur skömmu fyrir leik og að jafnaði taka leikmennirnir sig til og sparka þeim frá miðjum vellinum og upp í stúku. Í góðri trú um að einhver heppinn krakki nái til boltanna fljúga þeir af stað í átt að stúkunni en lendingin getur verið misjöfn.

Á leik Grindavíkur og KR í gærkvöldi var eldri maður á gangi framan við stúkuna á Grindavíkurvelli og átti sér einskis ills von er einn boltinn skall í síðunni á honum. Manninum varð ekki meint af en honum var augljóslega brugðið, innan við millisekúndu eftir að boltinn skall í manninum var brosmildur stráksnáði búinn að góma boltann og gera hann að sínum.

Nú er lag fyrir leikmenn Landsbankadeildarinnar að koma nær stúkunni og sjá til þess fyrir næstu leiki í deildinni að engum verði meint af boltaregninu.

[email protected]



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024