Bogi úr leik en Englendingur til skoðunar
Bogi Rafn Einarsson, varnarmaður Grindvíkinga, mun missa að minnsta kosti af fyrri hluta tímabilsins í Pepsi deild karla í fótbolta vegna meiðsla. Þá fær Grindavík enskan leikmenn til reynslu í vikunni. Bogi fór í aðgerð á öxl í vetur og ljóst er að hann verður ekki klár fyrr en í fyrsta lagi síðari hluta sumars að því er fram kemur á fotbolti.net. Síðastliðið sumar spilaði Bogi fjórtán leiki í Pepsi-deildinni en hann hefur samtals skorað eitt mark í 49 deildar og bikarleikjum með liðinu á ferli sínum.
Jósef Kristinn Jósefsson er aftur á móti byrjaður að æfa á nýjan leik með Grindvíkingum eftir að hafa verið frá keppni lengst af í vetur. Jósef fór í speglun á hné í desember en hann er byrjaður að æfa núna á nýjan leik og gæti orðið klár í fyrsta ef allt gengur að óskum.
Grindvíkingar munu á föstudag fá enska leikmanninn Jordan Edridge til skoðunar. Edridge er uppalinn hjá Chesterfield en hann fór frá félaginu síðastliðið sumar. Edridge, getur spilað bæði á miðjunni og kantinum en hann hefur í vetur leikið með New Mills í ensku utandeildinni.