Bobby Walker valinn bestur
Leikstjórnandinn Bobby Walker, leikmaður toppliðs Keflavíkur í
Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var kjörinn besti þjálfarinn á fundinum og þá var Sigmundur Már Herbertsson útnefndur besti dómarinn en hann dæmir fyrir Njarðvík.
Úrvalslið fyrstu átta umferðanna var skipað eftirtöldum leikmönnum:
Bobby Walker – Keflavík, besti leikmaðurinn
Dimitar Karadzovski – Stjarnan
Páll Axel Vilbergsson – Grindavík
Jón N. Hafsteinsson – Keflavík
Óðinn Ásgeirsson – Þór Akureyri
Allir leikmennirnir hafa leikið átta deildarleiki og hefur Bobby Walker jafnan verið með hæsta framlag þeirra allra en hann gerir að jafnaði 22,6 stig að meðaltali í leik, tekur 4,9 fráköst, gefur 4,8 stoðsendingar og er með 84,6% vítanýtingu í þessum leikjum.
Keflavík situr á toppi Iceland Express deildarinnar með fullt hús stiga eftir að hafa unnið átta deildarleiki í röð. Þeir mæta Tindastól á Sauðárkróki í kvöld en liðið mun ferðast með langferðabíl Norður ef veður leyfir. Það kemur í ljós síðar í dag hvort leiknum verði frestað eða hvort hann verði leikinn, það veltur á veðrinu.
Athygli vekur að þetta mun vera í fyrsta sinn sem hinn margreyndi og sigursæli þjálfari Sigurður Ingimundarson fær viðurkenningu sem þjálfari karlaliðs. Ótrúlegt en satt hefur Sigurður aldrei verið útnefndur þjálfari ársins.
Suðurnesjamenn voru fyrirferðamiklir í valinu en nýliðar Stjörnunnar og Þórs frá Akureyri áttu bæði sína fulltrúa. Dimitar Karadzovski hefur verið að leika vel fyrir Stjörnuna í vetur með 20,1 stig að meðaltali í leik. Þá var Óðinn Ásgeirsson frá Þór með 17,6 stig að meðaltali í leik.
Páll Axel Vilbergsson leikmaður Grindavíkur er með 18,8 stig að meðaltali í leik en gulir hafa leikið fantavel síðan þeir töpuðu illa gegn toppliði Keflavíkur í fyrstu umferð mótsins. Páll er skytta mikil og því kemur ekki á óvart að hann er með bestu vítanýtingu allra í úrvalsliðinu eða 86,2% vítanýtingu.
Ánægjulegt var að sjá Jón N. Hafsteinsson í úrvalsliðinu en hann er dæmi um leikmann sem lætur greipar sópa á vellinum án þess að mikið fari fyrir honum. Jón er límið i vörn Keflavíkur og ógnandi við körfuna á báðum endum vallarins. Jón er með 8,9 stig að meðaltali í leik og er að finna sig vel hjá Keflavík eftir að hafa um langa hríð verið að glíma töluvert við meiðsli.
Víkurfréttir létu sig ekki vanta á verðlaunaafhendinguna og síðar í dag verður hægt að sjá viðtöl við Jón og Sigurð frá Keflavík sem og Sigmund dómara.
VF-Myndir/ [email protected] – Frá verðlaunaafhendingunni í dag sem fram fór á matsölustaðnum Carpe Diem við Rauðarárstíg í Reykjavík. Á efri myndinni eru verðlaunahafarnir samankomnir. Efri röð frá vinstri: Páll Axel Vilbergsson, Grindavík, Sigmundur Már Herbertsson, dómari, Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur, Jón N. Hafsteinsson, Keflavík og Ásgeir faðir Óðins leikmanns Þórs á Akureyri. Í neðri röð frá vinstri eru Dimitar Karadzovski, Stjarnan og Bobby Walker besti leikmaður fyrstu átta umferðanna og leikmaður Keflavíkur.
Á neðri myndinni er Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur og Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands.