Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Blóðug slagsmál á hverri æfingu“
Þriðjudagur 6. janúar 2009 kl. 17:27

„Blóðug slagsmál á hverri æfingu“




Jóhann Árni Ólafsson, 22 ára Njarðvíkingur hélt um síðasta sumar út til Þýskalands til þess að gerast atvinnumaður í körfubolta, en hann samdi við Pro B deildarliðið Proveo Merlins til eins árs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

,,Það hefur bæði gengið mjög vel og svo frekar illa, eins og gengur og gerist í boltanum. Það meiddust margir leikmenn í byrjun tímabils og því vorum við ansi þunnskipaðir í sumum leikjum í upphafi tímabils, en núna eru allir heilir og gríðarleg samkeppni um mínútur“ segir Jóhann, og bætir við að á hverri æfingu séu nánast blóðug slagsmál því samkeppnin sé mikil, og það væri heldur betur að skila sér í leik liðsins.

Aðspurður hvernig honum líki þýskur körfubolti segir hann að honum finnist boltinn þar í landi ekki beint einkennast af einhverju einu sérstöku, og að liðið hans spili mjög mismunandi körfubolta eftir því hvor leikstjórnandinn sé inná, þar sem þeir eru með tvo. Annar þeirra vilji hlaupa við hvert tækifæri á meðan hinn sé meira varkár. Sjálfum hafi honum alltaf líkað að spila hraðan körfubolta, hvort sem það er á Íslandi eða í Þýskalandi.

„Það sem Þýskaland hefur fram yfir Ísland er umgjörðin í kringum leiki. Hér er alltaf troðfullt á leikjum hjá okkur og fólk er mætt löngu fyrir leik að búa til stemningu, syngja og láta öllum illum látum og eru virkilega með á nótunum í leikjum, og það hjálpar manni mikið og gefur manni auka orku“ útskýrir Jóhann.

Jóhann Árni fékk nokkra daga frí til að eyða jólunum með fjölskyldunni heima á Holtsgötunni í Njarðvík, og sagðist ekki hafa hlakkað svona mikið til jólanna síðan hann var 7 ára gamall. Markmið hans er að spila víðar um Evrópu og segir hann Spán vera algjört draumaland í þeim efnum, en segist þó verða að leggja mikið á sig til að ná því markmiði. Hann segist í raun ekki velta sér of mikið uppúr hvað gerist á næsta ári eða árum, heldur reynir hann bara að gera sitt besta og sér svo hvert það skilar sér.

En var þetta æskudraumurinn? ,,Ég sagði mömmu minni þegar ég var í kringum átta ára að ég ætlaði að verða atvinnumaður í körfubolta. Hún sagði bara ,,jájá Jói minn“ og hafði litla trú á þessum orðum mínum. En þetta hefur verið draumur minn lengi að spila í Evrópu, ég er samt bara á mínu fyrsta ári í þessum atvinnubransa og á langt í land með að upplifa drauminn eins og ég sá hann fyrir mér á yngri árum. Ég er að taka fyrsta skrefið núna og vonast eftir að taka sem flest jákvæð skref upp á við og sjá svo hvert það skilar manni.“

Jóhann segir aðrar kröfur gerðar til sín af þjálfaranum úti heldur en heima þar sem þarna sé hann útlendingur sem keyptur er til þess eins að spila körfubolta og því sé ætlast til að hann geri það sem þeir fengu hann til að gera á hverjum degi. ,,Vissulega var ég kominn í ábyrgðarhlutverk í Njarðvíkurliðinu og ákveðnum hlutum ætlast til af mér, en ef ég spilaði illa þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna. Heima á Íslandi er maður líka að gera margt annað fyrir utan körfubolta, en úti einbeiti ég mér einungis að boltanum og því engin afsökun ef maður leggur sig ekki 100% fram hverju sinni.“

Hvernig gengur að ná þýskunni? „Ég er farinn að skilja meira en ég þorði að vona í byrjun, enda mörg orðin lík enskum og dönskum, en einu skiptin sem ég virkilega þarf að tala þýsku er þegar ég panta mér mat á veitingastöðum, og því er ,,matar-þýskan“ mín í fínum málum, en í liðinu mínu eru 6 útlendingar þannig að allt fer fram á ensku í kringum liðið og þar tala allir mjög góða ensku.“

Aðspurður segir Jóhann Teit Örlygsson vera fyrirmynd hans í körfuboltanum, eins og hjá flestum Njarðvíkurdrengjum á hans aldri, enda ólst hann um við að fara á Njarðvíkurleiki og horfa á Teit og félaga vinna nánast alla leiki og segir hann kraftinn og viljann sem þeir höfðu til að gera allt sem þurfti til að vinna standa upp úr. Einnig lítur hann á Loga Gunnarsson sem fyrirmynd og segir að hægt sé að læra mikið af hans atvinnumannaferli, þar sem nú sé Jóhann að byrja á sama stað og Logi, og segist hann hafa fengið góð ráð hjá Loga áður en hann fór út í þetta verkefni.

Ef Jóhann fengi að ráða hvort hann vildi skora 30 stig í leik eða taka 20 fráköst segir hann að miðað við hlutverk sitt í liðinu myndu þeir frekar vinna leik með 30 stigum frá honum, heldur en 20 fráköstum. Jóhann fylgist að sjálfsögðu vel með deildinni á Íslandi og segist fylgjast með Njarðvíkurleikjunum í beinni textalýsingu á netinu, ásamt því að fylgjast vel með gangi mála hjá Breiðablik, en þar spila margir af félögum Jóhanns.

Að lokum segir Jóhann sitt mottó alltaf hafa verið ,,að þetta muni reddast og maður eigi ekki að æsa sig of mikið yfir hlutunum.“ Hann bætir því við að örugglega séu margir ósammála honum í því, og móðir hans sé þar fremst í flokki. Þetta hafi þó allt reddast hingað til að minnsta kosti.

VF-myndir: Úr einkasafni