Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Blóðhundarnir úr Keflavík komnir á sporið: Skelltu Fjölni!
Fimmtudagur 11. nóvember 2010 kl. 22:02

Blóðhundarnir úr Keflavík komnir á sporið: Skelltu Fjölni!

Einn dropi er nóg fyrir hákarlinn til að finna þig í sjónum, hið sama gildir fyrir Keflvíkinga inni á parketinu. Fjölnismenn gáfu höggstað á sér í Grafarvogi í kvöld og Keflvíkingar rifu þá hreinlega á hol með mögnuðum þriðja leikhluta. Lazar Trifunovic gerði 36 stig fyrir Keflvíkinga og tók 8 fráköst en Tómas Heiðar Tómasson var með 28 stig í liði Fjölnis. Með sigrinum eru Keflvíkingar komnir upp í 5. sæti með 6 stig og hafa nú unnið tvo leiki í röð, gegn KR og Fjölni, blóðhundarnir eru komnir á sporið!
Pétur Guðmundsson aðstoðarþjálfari Keflavíkur var við stjórnartaumana í kvöld þar sem Guðjón Skúlason var fjarverandi. Heimamenn hófu leikinn í svæðisvörn og Keflvíkingar pressuðu við og við, einbeittar varnaryfirlýsingar í upphafi leiks en varnarleikurinn reyndist víðsfjarri í þessar fyrstu 10 mínútur.

Svæðisvörn heimamanna hriplak og Keflvíkingar nýttu sér það vel og komust í 9-16 og Örvar Kristjánsson tók leikhlé fyrir Fjölni. Lazar Trifunovic var eitraður á fyrstu mínútunum og skoraði 10 af fyrstu 16 stigum Keflvíkinga. Heimamenn komu sterkir út úr leikhléinu og með tveimur þriggja stiga körfum frá Ægi Þór og Tómasi Heiðari minnkuðu þeir muninn í 17-18.

Í þann mund sem gestirnir virtust vera að byggja upp forskot á nýjan leik í þessum hraða og opna upphafsleikhluta kom Arnþór Freyr Guðmundsson heitur af bekk Fjölnis og með tveimur þristum kom hann gulum í 30-24. Það voru svo heimamenn sem leiddu 32-27 að loknum fyrsta leikhluta en hittni liðanna var góð, Fjölnismenn með 6 af 8 þristum niðri og Keflavík 5 af 8 og til marks um andleysið í varnarleik liðanna voru aðeins dæmdar þrjár villur allan upphafsleikhlutann.

Í öðrum leikhluta brá fyrir maður á mann vörn hjá Fjölni en þeir skiptu nokkuð ört á milli þess og svæðisvarnar. Nokkuð róaðist yfir liðunum í stigaskorinu og varnirnar fóru að taka við sér. Staðan var jöfn 40-40 þegar Tómas Heiðar Tómasson fór á flug. Fyrst smellti hann þrist eftir laglega gabbhreyfingu á Hörð Axel Vilhjálmsson um leið og skotklukkan gall, nokkru síðar eða þegar 40 sekúndur voru til hálfleiks setti Tómas annan þrist og staðan 49-42 Fjölni í vil. Gunnar Einarsson gerði þó mikilvæg stig fyrir gestina með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 49-45 þegar þrjár sekúndur voru til hálfleiks.

Tómas Heiðar Tómasson var kominn með 19 stig hjá Fjölni í hálfleik og Lazar Trifunovic 16 í liði Keflavíkur. Heimamenn fóru langt á frákastabaráttunni sem þeir leiddu 18-13 í leikhléi.

Lazar Trifunovic var ekki aðeins skæður í fyrri hálfleik, snemma í þeim síðari skoraði hann og fékk villu að auki og Fjölnismenn höfðu engin svör gegn honum. Keflvíkingar byrjuðu þriðja leikhluta 7-16 og þá tóku Fjölnismenn leikhlé sem reyndist baunabyssa gegn skriðdreka því Keflavík herti róðurinn. Vörn gestanna var þétt, allir sem einn börðust vel og höfðu gestirnir mikla yfirburði í teignum þar sem stóru leikmenn Fjölnis voru fátt annað en áhorfendur þessar 10 mínútur.

Hörður Axel Vilhjálmsson heimabruggaður í Dalhúsum kom Keflavík í 60-72 með þriggja stiga körfu og Keflvíkingar slúttuðu vel og leiddu 67-81 fyrir fjórða og síðasta leikhluta sem þýðir að þeir unnu þann þriðja 18-36, magnaður leikhluti hjá gestunum.

Á brattann var að sækja fyrir Fjölni, 14 stigum undir gegn Keflavík og að lokum reyndist þriðji leikhlutinn einfaldlega of stór biti fyrir heimamenn. Fjölnir vann þriðja leikhluta 29-23 og gerðu ansi vel, svo vel að oft virstust þeir ætla að jafna metin og vonir heimamanna jukust þegar Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór af velli með fimm villur í liði Keflavíkur þegar 5 mínútur voru til leiksloka.

Lokatölur í Grafarvogi reyndust svo 96-104 Keflavík í vil sem, þegar öllu er á botninn hvolft, gerðu út um dæmið í þriðja leikhluta, Lazar Trifunovic fór mikinn með 36 stig og 8 fráköst en Keflavíkurliðið í heild lék vel og Hörður Axel Vilhjálmsson sannaði að sjaldan launar kálfurinn ofeldið, setti 14 stig, tók 7 fráköst og gaf 11 stoðsendingar gegn uppeldisfélagi sínu Fjölni, flottur leikur hjá Herði og þá er ekki úr vegi að klappa Gunnari Einarssyni og Sigurði Þorsteinssyni einnig á bakið.

Hjá Fjölni var Tómas Heiðar Tómasson að leiða sóknir heimamanna með 28 stig. Ben Stywall gerði 24 stig og Ægir Þór Steinarsson var með 15 stig og setti stoðsendingamet þetta tímabilið með 13 stoðsendingar.

Heildarskor:

Fjölnir: Tómas Heiðar Tómasson 28, Ben Stywall 24/9 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 15/4 fráköst/13 stoðsendingar, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 10/7 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 10, Sindri Kárason 6, Sigurður Þórarinsson 3, Elvar Sigurðsson 0, Einar Þórmundsson 0, Hjalti Vilhjálmsson 0, Trausti Eiríksson 0, Jón Sverrisson 0.

Keflavík:
Lazar Trifunovic 36/8 fráköst, Gunnar Einarsson 21/6 stoðsendingar, Valention Maxwell 17/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/7 fráköst/11 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/9 fráköst, Gunnar H. Stefánsson 3, Jón Nordal Hafsteinsson 2, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Sigmar Logi Björnsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Kristján Tómasson 0, Andri Þór Skúlason 0.

Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Tómas Tómasson

Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski:
Það voru engin vettlingatök í Grafarvogi í kvöld.

Umfjöllun: [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024