Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Bláa Lóns þrautin á fjallahjóli 2004
Föstudagur 11. júní 2004 kl. 14:14

Bláa Lóns þrautin á fjallahjóli 2004

Bláa Lóns þrautin á fjallahjóli verður haldin sunnudaginn 13. júní og verður boðið upp á 60 og 70 km vegalengdir.

Bláa Lóns þrautin, sem er skipulögð af Hjólreiðafélagi Reykjavíkur (HFR) í samvinnu við Bláa Lónið og Hafnarfjarðarbæ, er nú haldin í 8. sinn og er fjölmennasta hjólakeppnin fyrir fullorðna sem haldin er hér á landi en alls tóku 73 keppendur þátt í þrautinni í fyrra. Þrautin hefst við íþróttahúsið við Strandgötu í Hafnarfirði kl. 9.30 og hjólar þá hópurinn saman í lögreglufylgd til kirkjugarðsins þar sem tímataka hefst.

Þrautin er 60 km (bláa leiðin) og er hjólað frá Hafnarfirði, um Krýsuvíkurveg, Djúpavatnsleið, gegnum Grindavík og endað í Bláa Lóninu – heilsulind þar sem þátttakendum verður boðið í heilsulindina. Leiðin er að hluta á bundnu slitlagi og er ekki mjög torfær. Boðið verður upp á erfiðan 10 km krók (rauða leiðin) bak við Helgafell fyrir þá allra hörðustu. Keppendur sem velja lengri leiðina munu einnig keppa um Íslandsmeistaratitilinn á fjallahjóli 2004. Tvær drykkjarstöðvar eru á leiðinni, önnur á miðri leið og hin við markið. Sjúkragæsla verður undir umsjón Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Þrautin er opin öllum hjólreiðamönnum 16 ára og eldri. Í karlaflokki verður keppt í flokkum 16-18 ára, 19-33 ára og 34 og eldri. Í kvennaflokki verður keppt í flokkum 16-33 ára og 34 ára og eldri. Fyrstu keppendur koma í mark u.þ.b. 2 klst síðar en hingað til hefur þátttakendum tekist að ljúka keppninni á innan við 4 klst. Tímatöku lýkur við markið kl. 14.30. Verðlaunaafhending mun fara fram í Bláa Lóninu – heilsulind og verða verðlaun veitt fyrir fyrsta sæti í öllum flokkum.

Skráning verður samdægurs á milli kl. 8.15 og 9.00 og er þátttökugjald kr. 2.000,- Innifalið í skráningagjaldinu er bolur merktur keppninni og hjólabrúsi. Flutningur til baka fyrir hjólin verður kl. 16.00 frá Bláa Lóninu - heilsulind. Hjólin verða flutt með sendibíl þátttakendum að kostnaðarlausu. Þeir sem kjósa að taka rútu til baka greiða kr. 850.- með Þingvallaleið. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu HFR sem er hfr.vortex.is og í síma 664 1831.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024