Bláa lónið styrkir íþróttafélögin á Suðurnesjum
Þann 6. janúar veitti Bláa lónið íþróttafélögum á Suðurnesjum styrki til eflingar á barna- og unglingastarfi félaganna. Alls nemur styrkupphæðin um fjórtán milljónum króna á samningstímabilinu sem telur tvö ár.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir að það sé Bláa lóninu mikilvægt að hlúa að nærsamfélaginu, og þá ekki síst með stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarf, og svo hafi verið viðhaft um langt árabil. „Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu mikilvægt það er fyrir Suðurnesin að hafa öflugt íþróttastarf innan bæjarfélaganna. Það er okkur Bláa lóninu sönn ánægja að styðja við þetta góða starf og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með íþróttafélögunum á Suðurnesjum.” Grímur bætir við að þegar horft er til þess hversu ósérhlífið starf íþróttafélaganna sé í þágu unga fólksins, ekki síst hið mikilvæga starf sjálfboðaliða, þá sé Bláa lóninu sérstaklega ljúft og skylt að leggja hönd á plóg.
Rúnar V. Arnarson, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar, þakkaði fyrir stuðninginn fyrir hönd félaganna og sagði hann gríðarlega mikilvægan. Um leið tók hann undir orð Gríms um mikilvægi öflugs íþróttastarfs, einkum þegar unga fólkið er annars vegar. „Kynslóð eftir kynslóð sýnir það sig glögglega hversu góð áhrif íþróttaiðkun hefur, bæði sem heilsuefling til skemmri tíma og forvörn til lengri tíma. Í þessu sambandi er ómetanlegt að eiga bakhjarla á borð við Bláa lónið sem hefur um áratuga skeið stutt myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfið hér á Suðurnesjum. Við þökkum Bláa lóninu kærlega fyrir, þessi styrkur mun nýtast vel við starfsemi og áframhaldandi uppbyggingu íþróttafélaganna.“