Björn Lúkas vann fyrsta MMA bardagann með rothöggi
-„Besta tilfinning sem ég hef upplifað“
Björn Lúkas Haraldsson mætti Zabi Saeed í veltivigt í Færeyjum um síðustu helgi í sínum fyrsta MMA bardaga. Þrír andstæðingar drógu sig úr bardaganum en Saeed, sem berst vanalega í léttvigt, var tilbúinn að berjast í veltivigt gegn óreyndari andstæðingi. Björn byrjaði mjög vel og var ekki lengi að þessu, en dómarinn stöðvaði bardagann í 1. lotu og sigraði Björn bardagann með tæknilegu rothöggi.
Í samtali við MMA fréttir segist Björn hafa stefnt að þessu frá 13 ára aldri og að sigurtilfinningin hafi verið ein sú besta sem hann hafi upplifað. „Það augnablik þar sem ég stend upp er líklega besta tilfinning sem ég hef upplifað,“ segir hann.