Björgvin Íslandsmeistari: Örn í 2. sæti
Björgvin Sigurbergsson, GK, og Nína Björk Geirsdóttir, GKj, urðu í dag Íslandsmeistarar í höggleik í golfi á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Björgvin varð meistari er hann lauk keppni á einu höggi yfir pari en Örn Ævar lauk keppni á tveimur höggum yfir pari og hafnaði í 2. sæti en þessir tveir kappar voru einmitt í eldlínunni árið 1999 er þeir mættustu í umspili um titilinn þar sem Björgvin fór með sigur af hólmi.
Segja má að Björgvin hafi tryggt sér titilinn í dag er hann vippaði ofan í holuna á 17. braut og náði þar fugli. Björgvin fékk síðan skolla á 18. holu og það dugði honum til sigurs. Heiða Guðnadóttir, GS, hafnaði í 5. sæti í mótinu en lengi vel í dag var hún í baráttu um verðlaunasæti en það hafðist ekki.
Fín helgi hjá Suðurnesjakylfingum þar sem Örn Ævar og Heiða fóru þar fremst í flokki.
Sjá nánar um mótið á www.kylfingur.is
VF-mynd/ www.kylfingur.is - Örn Ævar á Hvaleyrinni í dag þar sem nokkuð úrhelli setti mark sitt á þennan fjórða og síðasta keppnisdag.