Bjarni næsti þjálfari
Bjarni Jóhannsson verður næsti þjálfari knattspyrnuliðs Grindavíkur og skrifað var undir samning á fimmtudag. Að sögn Jónasar Þórhallssonar, formanns knattspyrnudeildar hafa viðræður við Bjarna staðið yfir um tíma en Milan Stefán Jankovic hefur óskað eftir því að taka við yngri flokkum. „Mikil aukning hefur orðið í yngri flokka starfi hjá okkur og við auglýstum eftir yfirþjálfara yngri flokka. Janko óskaði eftir því að vera færður til en hann hefur verið hjá okkur í 10 ár og þjálfaði 2. flokk áður en hann tók við meistaraflokk“, segir Jónas. Samningar við Bjarna og Milan voru undirritaðir á fimmtudag en samningur Bjarna er til fjögurra ára. „Það er enginn fótur fyrir því að Eyjólfur komi með Bjarna“, sagði Jónas þegar hann var spurður um fréttir þess efnis. „Við höfum ekki rætt við Eyjólf og við erum að ráða Bjarna en ef Eyjólfur fylgir með er það bónus fyrir okkur.“ Bæði Eyjólfur og Bjarni hafa lýst yfir áhuga á að enda saman í liði en ekkert hefur verið ákveðið af hálfu Grindavíkur.