Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bjarni jafnaði í ótrúlegum leik gegn Blikum
Fimmtudagur 28. maí 2009 kl. 23:16

Bjarni jafnaði í ótrúlegum leik gegn Blikum


Varnarmaðurinn hávaxni Bjarni Holm jafnaði fyrir Keflvíkinga í þessum ótrúlega leik í Kópavoginum í Pepsi-deildinni í kvöld sem endaði 4:4. Bjarni skoraði þarna sitt fyrsta mark fyrir sitt nýja félag en hann lék með Eyjamönnum undanfarin þrjú ár.
Tveir aðrir leikmenn Keflavíkur skoruðu sitt fyrsta mark á leiktíðinni. Framherjinn Haukur Ingi Guðnason kom Keflvíkingum í 1:0 og opnaði þannig markareikning sinn en hann var óheppinn að skora ekki í hinum leikjunum. Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði annað mark Keflavíkur sem byrjaði vel í Kópavogi í kvöld. Blikar minnkuðu muninn fyrir leikhlé en í sjónvarpsmyndum eftir leikinn sést hvernig boltinn fer í hönd leikmanns Blika áður en hann gefur boltann fyrir markið.

Blikar mættu miklu ákveðnari í seinni hálfleik og skoruðu 3 mörk á 11 mínútum og Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur sagði að sitt lið hafi ekki mætt í seinni hálfleikinn. En silfurliðið frá síðasta ári var ekki á því að gefast upp og Magnús Þórir Matthíasson, einn af nýliðum Keflavikur skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið þegar hann minnnkaði muninn í 4:3. Það var síðan miðvörðurinn Bjarni Holm Aðalsteinsson sem jafnaði leikinn með frábæru marki 4:4 sem verða að teljast sanngjörn úrslit.
Keflvíkingar eru með 10 stig eftir fimm umferðir og í 3.-5. sæti með KR og Stjörnunni. Næsti leikur er einmitt við Stjörnuna sem hefur hafið mótið með miklum stæl, unnið fjóra leiki og eru í efsta sæti deildarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Keflavík og Breiðablik skilja jöfn 4:4. Það gerðist líka í síðasta leik Keflavíkur og Blika 1973 í Keflavík en þá var Keflavík með yfirburðastöðu og búið að tryggja sér titilinn og aðeins fengið á sig örfá mörk í deildinni. Þáverandi þjálfari liðsins, Englendingurinn Joe Hooley var svo ósáttur við þennan lokaleik hjá sínum mönnum að hann fór strax eftir leikinn og var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna og ákvað að hætta svo með liðið. Þetta var gullaldarlið Keflavíkur sem vann Íslandsmeistaratitilinn þrisvar sinnum á fimm árum. Fyrirliði liðsins á þessum árum var Guðni Kjartansson, faðir Hauks Inga sem skoraði fyrir Keflavík í dag.

Hakur Ingi Guðnason opnaði markarreikninginn í kvöld með góðu marki gegn Blikum. Á efstu myndinni má sjá Bjarna í vörninni gegn FH sem vann sigur á KR í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús Þórir Matthíasson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík í efstu deild í kvöld.