Bjarni: Hef glímt við meiðsli síðustu þrjú ár
Knattspyrnumaðurinn Bjarni Sæmundsson meiddist illa í byrjun marsmánaðar þegar Njarðvík mætti Fjarðabyggð. Bjarni tvíbrotnaði í leiknum á ökkla eftir að leikmaður Fjarðabyggðar lenti ofan á Bjarna með fyrrgreindum afleiðingum. Víkurfréttir náðu tali af Bjarna sem á sunnudag verður 31 árs gamall en hann átti ekki von á því að geta leikið með Njarðvíkingum í 1. deildinni í sumar.
,,Það er góð sprunga í einu beininu og þar var settur bolti í gegn og plata með fjórum skrúfum utan á annað bein svo ég er nelgdur saman þessa dagana,” sagði Bjarni sem brotnaði á vinstri ökkla. Hann fer í aðra myndatöku á föstudag og fær þá nýtt gifsi.
,,Líklega verð ég ekkert með í sumar en ég hef verið að glíma við meiðsli síðustu þrjú ár. Þegar ég fór til Keflavíkur þá braut ég á mér aðra stóru tánna strax á fyrstu æfingu og hef átt í basli með meiðsli síðan,” sagði Bjarni sem hefur m.a. glímt við nára- og hnémeiðsli.
Bjarni segir að þrátt fyrir brotthvarf nokkurra leikmanna úr herbúðum Njarðvíkinga sé framtíðin björt. ,,Það er oft ekkert það versta sem kemur fyrir lið að stokka upp í sínum röðum en framtíðin er björt og hjá okkur er mikið af frískum strákum sem hafa mikinn áhuga. Þetta gæti samt orðið erfitt hjá okkur í sumar og Njarðvík verður kannski ekki í toppbaráttunni í 1. deild en það er eðlileg krafa að liðið haldi sér uppi,” sagði Bjarni en hvað hans mál varðar með framhaldið í knattspyrnu sagði Bjarni að tíminn yrði að leiða það í ljós hvort hann eigi afturkvæmt á knattspyrnuvöllinn.
Bjarni á að baki 177 leiki með Njarðvíkingum og hefur um langa hríð verið einn af sterkari leikmönnum félagsins.
VF-Mynd/ [email protected]– Bjarni í leik með Njarðvíkingum gegn Þrótti Reykjavík á síðustu leiktíð.